8. nóvember 2019
Stytting vinnuvikunnar
Myndin er fengin frá NN - norden.org
Eitt af stærstu baráttumálum okkar og annarra aðildarfélaga BSRB síðustu ár hefur verið að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Hluti af því viðamikla verkefni er að stytta vinnuvikuna, án þess að laun skerðist á móti. Þetta hefur verið ein af okkar meginkröfum í kjarasamingsviðræðum okkar nú eins og margoft hefur komið fram. Við teljum okkur hafa náð ákveðnum árangri í viðræðunum við ríkið síðustu daga hvað varðar styttingu dagvinnufólks en stytting vinnuvikunnar hjá þeim sem vinna vaktavinnu er ekki síður mikilvæg enda löngu ljóst að vaktavinna er afar slítandi fyrir þá sem henni gegna.
Okkar stærstu viðsemjendur, ríki og borg, hafa í samstarfi við BSRB hafa undanfarin ár verið með tilraunaverkefni á nokkrum vinnustöðum þar sem vinnuvikan hefur verið stytt með ýmsum móti og árangur þess mældur í bak og fyrir. Bæði hvað varðar vellíðan starfsmanna og gæði þjónustunnar. Á vefsíðu BSRB hefur verið tekinn saman fróðleikur um tilraunaverkefnin og þetta stóra baráttumál sem við hvetjum ykkur til þess að lesa. Lesið nánar hér.
Vissir þú til dæmis að Íslendingar vinna mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við? Því liggur í augum uppi að við getum ekki notið samveru með fjölskyldu og vinum eins mikið og til dæmis aðrar Norðurlandaþjóðir.