12. nóvember 2019
Fulltrúaráð kryfur yfirstandandi kjaraviðræður
Yfirstandandi kjarasamningsviðræður voru aðalumræðuefni fulltrúaráðsfundar Sameykis sem haldinn var í gær, en fulltrúaráðið er kjörið af trúnaðarmönnum og samanstendur af um það bil 100 manna hópi úr röðum trúnaðarmanna, fulltrúa fagdeilda og stjórnar Sameykis. Fyrir fundinum lágu fjölmörg mál, sem snéru að samingsviðræðunum og kjörum félagsmanna.
Árni Stefán Jónsson formaður kynnti meðal annars þær umræður sem verið hafa í samninganefndunum undanfarið um styttingu vinnuvikunnar fyrir dagvinnufólk. Fundarfólk ræddi útfærslur styttingarinnar og sitt sýndist hverjum, en enn á eftir að komast að niðurstöðu um styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk. En Hrannar Már lögfræðingur BSRB fjallaði einmitt um mikilvægi styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk, enda sýna allar rannsóknir að álag vegna vaktavinnu hefur slæm áhrif á heilsu fólks.
Þá fjallaði Sigríður Ingibjörg hagfræðingur BSRB einnig um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og vakti meðal annars athygli á raunlækkun framlags til Landspítala og framhaldsskólafræðslunnar.
Að lokum kynnti Garðar Hilmarsson varaformaður hugmyndir um breytingar á ávinnslu orlofsdaga og réttinda fólks til þeirra. Fyrir liggur að breyta þurfi fyrirkomulaginu vegna nýrra laga sem banna mismunum á grundvelli aldurs. Þær hugmyndir sem ríkið hefur lagt fram féllu ekki í góðan jarðveg hjá fundarfólki og munu formenn og fulltrúar samninganefndanna taka þau skilaboð með sér inn á næstu fundi. En fundir með öllum viðsemjendum félagsins eru á dagskrá þessa vikuna.