Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

30. janúar 2020

Fjölmennur baráttufundur í Háskólabíó

Nú er nýlokið fjölmennum baráttufundi í háskólabíó en þar var Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, einn af ræðumönnum. Hér birtum við ávarpið sem hann flutti á fundinum.

Ávarp Háskólabíó 30. janúar 2020

Kæru félagar!
Fyrir tæpum fimm árum stóð ég hér í nákvæmlega sömu sporum á baráttufundi vegna kjarasamninganna þá. Þá vorum við í samfloti SFR, Sjúkraliðafélag Íslands og Landsamband lögreglumanna.
Hér erum við komin aftur, enn stærri hópur til þess að knýja á um kjarasamninga. Viðsemjendur okkar hafa sýnt okkur óþolandi lítilsvirðingu með því að draga samningana nú í 10 mánuði.
Í samningunum 2015 vorum við að sækja kjarabætur sem aðrir höfðu þegar fengið. Sú saga er að hluta til að endurtaka sig nú. Fyrir fimm árum þurftum við verkföll til að ná samningum, þurfum við virkilega að fara sömu leið núna?
Við höfum lagt áherslu á að ná fram raunverulegri styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa milli markaða eins og lofað var í samkomulaginu við ríkið frá 2016 og endurbætta launaskriðstryggingu. Allt eru þetta réttmætar kröfur.
Við höfum náð vissum áfanga í styttingu vinnuvikunnar en aðrir þættir eru meira og minna í uppnámi.
Það hefur verið furðulegt að sitja við samningaborðið undanfarnar vikur – það mætti líkja því við að starfa á einhvers konar prúttmarkaði. Öll viðbrögð viðsemjenda við réttmætum kröfum okkar, ganga út á að við eigum að borga fyrir bætt réttindi með því að selja þau réttindi sem við þegar höfum!
Okkur hefur hingað til tekist að afstýra þessum óraunhæfu kröfum vinnuveitenda, en það hefur tekið óhemju orku og dýrmætan tíma að verja núverandi kjarasamningi fyrir þessari ásælni ríkisins, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna.
Nýverið byrjuðum við loks að tala um launasetninguna, launahækkanirnar sjálfar. En þá bregður svo við að ríkið telur að við eigum að fá hækkun á samningtímanum samkvæmt svokölluðum lífskjarasamningi, upp á 68.000 kr. eins og þeir sem eru á markaðslaunum á almennum markaði fá, en ekki 90.000 kr. eins og þeir sem eru á taxtalaunum.
Það er alveg nýtt fyrir mér að opinberir starfsmenn séu á markaðslaunum því enginn okkar félagsmanna kannast við að vera, eða hafa nokkurn tímann verið, á markaðslaunum hjá hinu opinbera.

Þetta dæmi sýnir ágætlega vitleysuna sem hefur verið í gangi.

Krafan okkar er skýr:

  • Viðunandi kjarasamninga strax
  • Launahækkanir ekki lægri en hjá öðrum
  • Burt með prúttmarkaðinn – gefum ekki eftir nein áunnin réttindi
  • Tafarlausa innágreiðslu vegna jöfnunar launa milli markaða

Við hjá Sameyki höfum undanfarnar vikur hitt fjöldann allan af félagsmönnum á vinnustaðafundum. Á öllum fundunum hefur komið fram skýr afstaða fólks.
Krafan er kjarasamninga strax - við erum tilbúin í aðgerðir ef á þarf að halda.

Félagar
Með þessum glæsilega fundi hér í dag og öðrum fundum um landið höfum við sýnt mátt okkar. Stöndum saman í baráttunni, einungis þannig náum við árangri.