30. janúar 2020
Opinberir starfsmenn sýna samstöðuna á baráttufundi
Opinberir starfsmenn eru hvattir til að mæta á baráttufund í Háskólabíó í dag!
Opinberir starfsmenn sætta sig ekki við áframhaldandi skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. Félagar í BSRB, Bandalagi háskólamanna (BHM) og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) munu fjölmenna á fund í Háskólabíói klukkan 17 í dag til að krefjast þess að ríki og sveitarfélög gangi tafarlaust til samninga við starfsfólk sitt.
Á sama tíma munu félagsmenn BSRB, BHM og Fíh koma saman á baráttufundum víða um land og fylgjast með streymi frá Háskólabíói.
„Við höfum nú verið í tíu mánuði án kjarasamnings og hefur þótt skorta verulega á samningsvilja viðsemjenda okkar. Samstaðan hefur verið sterkasta vopn opinberra starfsmanna í gegnum tíðina og það er kominn tími til að við sýnum viðsemjendum okkar það. Nú munum við fylgja eftir okkar kröfum með aðgerðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Á baráttufundinum mun forystufólk opinberra starfsmanna kanna hug félagsmanna til þess að hefja þegar í stað undirbúning frekari aðgerða til að knýja viðsemjendur til þess að ganga til samninga.
Ræðumenn verða:
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.
Milli ávarpa munu Jónas Sig og og hljómsveit ásamt Reykjavíkurdætrum taka nokkur lög.
Fundir á landsbyggðinni
Búið er að skipuleggja fundi á landsbyggðinni þar sem tekið verður við streymi frá fundinum í Háskólabíói. Félagar í aðildarfélögum BSRB, BHM og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga velkomnir!
Akureyri: Hof, Strandgötu 12
Ísafjörður: Skrifstofa FOSVest, Aðalstræti 24, 3.hæð
Grundarfjörður: Skrifstofa Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Borgarbraut 1a
Borgarnes: Grunnskólinn í Borgarnesi
Reykjanesbær: Skrifstofa Starfsmannafélags Suðurnesja, Krossmóar 4a
Sauðárkrókur: Kaffistofa Skagafjarðarveitna
Háskólinn á Hólum: Stofa 202
Nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburði fyrir fundinn.