4. febrúar 2020
Stofnun ársins - rannsóknarstyrkur
Stofnun ársins 2020 - 750.000 kr. rannsóknarstyrkur v. lokaritgerðar meistaranema í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands
Í ár er óskað eftir umsóknum meistaranema í opinberri stjórnsýslu sem stunda nám veturinn 2019-2020 og stefna á að vinna lokaverkefni veturinn 2020-2021
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu stendur fyrir árlegu vali á Stofnun ársins í vinnumarkaðskönnun sem unnin er í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og ná kannanirnar allt aftur til ársins 2006. Um að ræða eina stærstu reglulegu vinnumarkaðskönnun landsins. Í tengslum við könnunina hefur Sameyki staðið fyrir málþingi auk þess að veita styrk til meistaranema til þess að rannsaka og rita lokaritgerð um efni sem tengjast könnuninni er liggur til grundvallar á vali Stofnunar ársins. Könnunin er afar mikilvægt innlegg í umræðuna um starfsumhverfi og vellíðan starfsmanna og gefur mjög góða mynd af starfsumhverfi og starfsaðstæðum starfsmanna hjá hinu opinbera. Eitt af markmiðum með vali á Stofnun ársins er að stuðla að umræðu um aðstæður á vinnustöðum og bæta starfskjör og starfsskilyrði félagsmanna með því að gefa þeim tækifæri til samanburðar á mismunandi vinnustöðum.
Sameyki stéttarfélag og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmál við HÍ hafa af þessu tilefni gert samning sín á milli um að veita einum meistaranema í opinberri stjórnsýslu styrk til að skrifa meistararitgerð sem tekur mið af málefnum sem tengjast könnuninni Stofnun ársins. Styrkupphæðin er kr. 750.000,- sem dreifist á þrjá mánuði, en skilyrði fyrir styrkveitingu er að umsækjandi sé búinn með a.m.k. 30 ECTS-einingar í meistaranámi.
Í ár er óskað eftir umsóknum meistaranema í opinberri stjórnsýslu sem stunda nám veturinn 2019-2020 og stefna á að vinna lokaverkefni veturinn 2020-2021. Lokaverkefnið þarf að snúast um tengsl þeirrar vinnu sem stjórnendur stofnana leggja í niðurstöður könnunarinnar um Stofnun ársins og árangurs stofnunarinnar í könnuninni. Í rannsókninni þarf að koma fram lýsing og mat á rýni stjórnanda og hlutverk starfsmanna í þeirri vinnu. Mikilvægt er að niðurstöður könnunarinnar fyrir árið 2020 séu hluti rannsóknarinnarinnar.
Við val á styrkþega er horft til notagildis rannsóknarinnar, hvert fræðilegt og hagnýtt gildi hennar er og hvernig hún getur nýst við að bæta starfsumhverfi þeirra starfsmanna sem eru félagsmenn í Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu. Í umsókninni þarf að koma fram ítarleg greinargerð um rannsóknarviðfangsefni og rannsóknarspurningar sem og yfirlit yfir menntun og reynslu umsækjanda.
Umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2020. Tilkynnt verður um hver hlýtur styrkinn á málþingi sem Sameyki stendur fyrir um mannauðsmál hins opinbera þann 13. maí 2020. Þann dag verður einnig tilkynnt hver hlýtur titilinn Stofnun ársins 2020.
Skipuð hefur verið sérstök nefnd sem mun velja einn meistaranema úr hópi umsækjenda. Nefndina skipa þSólveig Jónasdóttir kynningarstjóri Sameykis, Guðmundur Freyr Sveinsson sérfræðingur á kjarasviði Sameykis og Margrét S. Björnsdóttir fh. Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ. Margrét mun taka á móti umsóknum í tölvupósti á netfangi msb@hi.is