Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

6. febrúar 2020

Aðildarfélög BSRB undirbúa atkvæðagreiðslu um verkfall

Aðildarfélög BSRB sem semja við ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa samþykkt að undirbúa atkvæðagreiðslur um verkfallsboðun. Atkvæðagreiðslurnar fari fram hjá hverju félagi fyrir sig 17. til 19. febrúar og áformaðar aðgerðir hefjist í mars.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna fjölbreyttum störfum til að mynda á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, í velferðarþjónustu, skólum, leikskólum og frístundaheimilum, í sundlaugum, íþróttamahúsum og þjónustu við aldraðra og fólk með fötlun. Um 19 þúsund starfsmenn ríkis og sveitarfélaga starfa undir kjarasamningum aðildarfélaga BSRB.

Félögin hafa verið kjarasamningslaus í á ellefta mánuð en kjarasamningsviðræður munu halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða.

Eftirtalin félög samþykktu að hefja undirbúning verkfallsaðgerða nú þegar:

Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
Sjúkraliðafélag Íslands
Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
Starfsmannafélag Fjallabyggðar
Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
Starfsmannafélag Garðabæjar
Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
Starfsmannafélag Húsavíkur
Starfsmannafélag Kópavogs
Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
Starfsmannafélag Suðurnesja
Starfsmannafélag Vestmannaeyja
Landssamband lögreglumanna og Tollvarðafélag Íslands hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær.

Atkvæðagreiðslur verða á hendi aðildarfélaga BSRB sem munu birta sínum félagsmönnum nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir eins fljótt og auðið er.

Fréttin birtist fyrst á vef BSRB.