24. febrúar 2020
Vinnur þú hjá Stofnun ársins?
Við erum þessa dagana að senda út könnunina um Stofnun ársins og launakönnunina og hvetjum allt okkar fólk til að gefa sér tíma til þess að svara.
Könnunin er unnin af Gallup og við erum í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið. Okkar fólk fær senda könnun en einnig ríkisstarfsmenn úr öðrum félögum og starfsmenn utan Sameykis á þeim vinnustöðum sem kaupa sig sérstaklega inn í könnuna. Það er því okkar allra hagur að sem flestir taki þátt og svari. Þannig verða niðurstöðurnar áreiðanlegri og gagnlegri fyrir okkur öll. Könnunin er notuð af stjórnendum og starfsfólki til að laga það sem betur má fara og þeir vinnustaðir sem nýta hana best hafa oftar en ekki verið í efstu sætunum.
Könnunin er tvískipt, í fyrri hlutanum er spurt um atriði tengd vinnustaðnum s.s. starfsánægju og traust. Í þeim síðari er spurt um laun og er hann ekki síður mikilvægur. Þann hluta könnunarinnar fá einungis félagsmenn Sameykis sendan. Við nýtum þær niðurstöður meðal annars til þess að fylgjast með launaþróuninni.
Þú hefur allt að vinna
Könnunin gefur okkur gífurlega mikilvægar upplýsingar um starfsánægju og samanburð sem nýtist bæði starfsfólki, stjórnendum og stéttarfélaginu. Auk þess geta allir þeir sem klára könnunina unnið veglegan vinning því þeir sem klára fara sjálfkrafa í happdrættispott og úr honum eru síðan dregnir 12 vinningar. Í verðlaun eru m.a. 60 þúsund króna gjafabréf frá Icelandair, miðar á Airwaves, helgardvöl í orlofshúsum félagsins og vikudvöl í orlofshúsum félagsins á Spáni.
Nánari upplýsingar um könnunina má finna á sameyki.is/kannanir/