Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. febrúar 2020

Fyrsti samningurinn í höfn

Þau gleðilegu tíðindi bárust í dag að búið væri að skrifa undir kjarasamning við Faxaflóahafnir. Sameyki á þar rúmlega tuttugu félagsmenn og var samningurinn samþykktur með yfir 80% atkvæða. Fulltrúar í samninganefnd eru afar ánægðir með samninginn, enda má í honum finna flest þau atriði sem félagið hefur verið að berjast fyrir. Þar er hvergi að finna tvöfalda eða lækkaða yfirvinnuprósentu eins og verið er að bera á borð annars staðar, allir starfsmenn fá 30 daga orlof með möguleika á lengingu, vinnuvikan styttist og allir starfsmenn fá 90 þúsund kr. launahækkun á samningstímabilinu.

Samningafundir við aðra viðsemjendur halda hins vegar áfram í skugga verkfallsboðunar, en boðaðir hafa verið tveir fundir með ríkinu, annar þeirra var í gær og hinn er á morgun. Fundurinn í gær var tíðindalítill og ekki á viðsemjendum okkar að finna að þar sé áhugi fyrir því að leysa málið. Þá er einnig fundað með Reykjavíkurborg, Rarik og Strætó í vikunni. Það verður að segjast að þrátt fyrir þessi góðu tíðindi sem greint er frá hér að ofan þá er ekki mikil bjartsýni ríkjandi í okkar herbúðum og undirbúningur fyrir verkfall því í fullum gangi.