Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. febrúar 2020

Kær samstarfsmaður fallinn frá

Okkar kæri vinur og samstarfsmaður Halldór Snorri Gunnarsson lést í síðustu viku eftir erfið veikindi. Útför hans fer fram frá Kópavogskirkju næstkomandi föstudag 28. febrúar kl. 11.00. Vegna jarðarfararinnar verður skrifstofa Sameykis lokuð milli kl. 10 og 14:00 þann dag.

 

Minningarorð

Halldór var mikill og góður félagi í vinnunni okkar á 4. hæð í BSRB húsinu þar sem hann starfaði sem sérfræðingur á kjarasaviði, fyrst hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og síðar Sameyki eftir sameiningu við SFR. Hann var alltaf til í að hjálpa samstarfsfólki við útreikninga og túlkun kjarasamaninga og standa með félagsmönnum í réttindamálum þeirra. Rökhugsun og greind Dóra varð öllum ljós þegar kom að talnavinnu enda varð hann fljótt sjálflærður snillingur í Excel forritinu. Dóri átti einnig til að leika sér að tölum og þrautalausnum eins og Sudoku sjálfum sér til ánægju og yndisauka. Þó Dóri hafi oft á tíðum verið ómissandi í verkefnavinnunni gat hann ekki stillt sig um að taka tíma í að segja sögur og brandara en hann hafði einstakt lag á að tengja þetta tvennt saman í langa frásagnarkeðju. Þannig gátum við samstarfsfólkið oft á tíðum lent í bullandi vandræðum þegar tíminn var naumur en Dóri var fljótur að vinna hann upp með því að reikna eða túlka hluti sem vöfðust fyrir öðrum.

Dóri tók að sér sjálfskipað hlutverk félagsmálastjóra í vinnunni og hafði einstakt lag á að gera hvern dag skemmtilegan. Hann skipulagði t.d. fjöldan allan af uppákomum, spurningakeppnum og getraunaleikjum í kringum stórmót í íþróttum og Eurovision. Auk þess var hann mikill hrekkjalómur og grínisti og fannst fátt skemmtilegra en að smygla USB móttakara í tölvurnar hjá samstarfsfólki og taka síðan yfir stórnina á tölvumúsunum okkar. Öll hans hrekkjabrögð og fimmaurabrandarar (margir voru þó rándýrir) fyrirgáfust á staðnum því Dóra var fyrst og fremst annt um að gleðja þá sem í kringum hann voru með uppátækjum sínum. Auk þess að sjá öllum fyrir skemmtun og tilbreytingu í vinnunni gerði hann kröfu um að aðrir spiluðu með. Til að mynda hélt hann uppi reglu um svokallaðan ,,bíla-ís“ sem gekk út að starfsfólk sem endurnýjaði bíl byði upp á ís á kaffistofunni. Oftar en ekki endaði það á Dóra sjálfum að draga fólk að landi og bar hann ófáa lítrana af ís upp á 4. hæðina í gegnum tíðina.

Það var ekki hjá því komist að lifa sig inn í líf Dóra þar sem Víkingur, Southamton og tippleikir skipuðu stóran sess. Það var þess vegna sérstakt gleðiefni þegar Víkingur varð bikarmeistari síðastliðið haust enda sagðist Dóri vera búinn að bíða eftir þessari stundu síðan 1971. Þegar kom að Dóra sjálfum og íþróttum var ljóst að hann hafði einstakt lag á að beita kylfum og spaða á íþróttavöllunum. Hann virtist óþreytandi við að elta golfkúlur um allar jarðir bæði á Íslandi og erlendis en í badmintoni gat hann leikið sér að því að senda andstæðinga sína hlaupandi horna á milli en standa sjálfur rólegur og brosandi í miðju vallarins. Mannkostir Dóra voru af ýmsu tagi og eftir hann liggja bæði skopteikningar og málverk. Þá naut Dóri þess að tala um og miðla tónlist á Facebook þar sem ábreiðum sem fáir höfðu heyrt um var gert hátt undir höfði.

Þó Dóri hefði vítt áhugasvið og væri margt til lista lagt var ljóst að Dísa heitin stóð hjarta hans alltaf næst. Dóri talaði alltaf af mikilli ást og umhyggju um börnin sín og Dísu sína og hafði gaman af að sýna myndir af þeim hjónum frá liðinni tíð. Söknuðinn frá andláti Dísu bar hann með sér fram að eigin andláti og þegar talið barst að alvarleika sjúkdómsins var hann fljótur að slá á létta strengi og segja að það væru þá að minnsta kosti helmings líkur á að hann hitti Dísu aftur. Við vitum síðan öll að það urðu fagnaðarfundir hjá þeim Dísu og Dóra daginn sem hann lést.

Við sem unnum með Dóra verðum alltaf þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með honum og allt það góða sem hann gaf vinnustaðnum með vinnuframlagi sínu og glaðværð. Það er óhætt að fullyrða að það þótti öllum vænt um Dóra.

Við vottum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Starfsfólkið á 4. hæðinni í BSRB húsinu.