5. mars 2020
Hvaða æsingur er þetta?
Hvaða æsingur er þetta?
Hvers vegna opinberir starfsmenn hafa fengið nóg og boða til verkfalls 9. mars
Kjarasamningar við meginþorra opinberra starfsmanna hafa nú verið lausir í rúma 11 mánuði. Allan þann tíma hafa viðræður á milli viðsemjenda verið í gangi þó hægt hafi gengið. Hlé var tekið um hásumarið og samið um innágreiðslu, enda trú okkar að fljótlega yrði gengið frá samningum. Það varð ekki raunin. Viðsemjendur snéru aftur að samningaborðinu tómir á svip með nákvæmlega sömu rulluna og í byrjun.
Samingarnir nú eru sannarlega flóknari en oft áður, í þeim er verið að gjörbylta skilgreiningum okkar á vinnutíma bæði í dagvinnu og vaktavinnu. Eftir þrotlausa vinnu vonumst við til að sjá samkomulag um útfærsluna liggja fyrir bráðlega.
Það sem út af stendur og er meginástæða verkfallsboðunar eru afar mikilvæg atriði eins og launaliður og jöfnun launa milli markaða. Samkomulag um jöfnun launa milli markaða var undirritað fyrir fjórum árum þegar gengið var frá jöfnun lífeyrisréttinda, en ekkert bólar á efndum.
Hvað varðar launaliðinn þá hefur hið opinbera fyrir löngu gefið út að hækkanir skuli vera í anda lífskjarasamningsins. Staðan er hins vegar sú að ríkið neitar að greiða félagsfólki Sameykis það sem í honum felst. Samband ísl. sveitarfélaga hefur þegar boðið hækkun upp á 90 þúsund, en ríkið neitar enn og Reykjavíkurborg virðist ætla að elta þá vitleysu. Deilan snýst um það hvort að Sameykisfólk séu starfsmenn á taxtalaunum eða markaðslaunum, en það hefur skilið á milli upphæðanna sem lífskjarasamningurinn gefur (annars vegar 68 þúsund kr. hækkun á mánaðarlaunum á samningstímabilinu og hins vegar 90 þúsund kr.). Saminganefndir Sameykis og annarra aðildarfélaga BSRB eru löngu langþreyttar eins og félagsmenn flestir og við viljum leysa þessa deilu. Við skorum á viðsemjendur okkar að klára málið með okkur áður en boðað verkfall hefst á miðnætti aðfararnótt mánudagsins 9. mars.
Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu