Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. mars 2020

Til hamingju með samstöðuna kæru félagar

Kæru félagar

Til hamingju með samstöðuna. Í nótt náðist að semja við alla þrjá af okkar stærstu viðsemjendum og aflýsa þannig verkföllum sem hófust aðeins nokkrum klukkustundum fyrr.
Undir morgun aðfaranótt mánudagsins 9. mars skrifuðum við undir samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga, ríkið og Reykjavíkurborg og munum nota næstu daga og vikur til að kynna þá rækilega og bera undir atkvæði ykkar félagsmanna.

Okkur er efst í huga í dag stolt yfir þeim mikla styrk og samstöðu sem félagsmenn hafa sýnt í þessu langa samningsferli. Hin mikla þáttataka og niðurstöður atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir sannfærðu okkur sem við samningaborðið sátu að á bak við okkur var sterk breiðfylking félagsmanna. Við sýndum styrk okkar og það er okkar skoðun að vegna hennar náðum við góðum samningum.

Samningarnir eru að mörgu leyti tímamóta samningar. Þar ber hæst stytting vinnuvikunnar sem okkur tókst að fá í gegn fyrir alla BSRB félaga á vettvangi bandslagsins. Styttingin hjá dagvinnufólki er um allt að fjóra klst. á viku en allt að átta stundir á viku hjá vaktavinnufólki, hjá þeim sem vinna erfiðustu vaktavinnustörfin. Það eru nú rétt yfir 40 ár síðan 40 klst. vinnuvika var lögfest hér á landi og undanfarinn rúman áratug höfum við opinberir starfsmenn barist fyrir styttingu hennar í nafni jafnréttis og fjölskylduvænna samfélags.

Sameyki hefur alls undirritað fimm kjarasamninga, þ.e. við Faxaflóahafnir, Strætó, Samband ísl. sveitarfélaga, ríkið og Reykjavíkurborg. Allir þessir samningar verða kynntir á næstu dögum og vikum og verða í kjölfarið bornir undir atkvæði.

Enn eru þó eftir nokkrir samningar og við munum leggja allt í að ná semja þar.