Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

27. mars 2020

Kæri félagi

Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka félagsfólki í Sameyki sem stendur vaktina nú á þessum erfiðu tímum. Starfsfólk sem sinnir umönnun veikra, aldraðra og fatlaðra, fólkið okkar sem starfar í skólum og leikskólum og allir hinir sem sinna almannaþjónustu um land allt. Þið eruð fólkið sem allir landsmenn reiða sig á núna og ég veit að þið munið standa undir þeirri ábyrgð með prýði. Við erum sannarlega stolt af ykkur.

Við höfum fyrir nokkru lokað móttökunni á skrifstofu Sameykis og sent flesta okkar starfsmenn heim að vinna til að takmarka samneyti fólks. Það gengur vel og við munum sinna allra þjónustu eins og vanalega, atkvæðagreiðslur eru í gangi, styrkumsóknir verða afgreiddar, orlofshús leigð út og síðast en ekki síst höldum við áfram að hitta þá viðsemjendur sem enn er ósamið við. Þeir fundir eru að vísu með öðru sniði en við vinnum ótrauð að því að klára útistandandi samninga. Í vikunni eru t.d. fundir með Fríhöfninni, Isavia og Rarik. Við erum einnig að setja okkur í samband við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu en þau taka mið af kjarasamning okkar við fjármálaráðherra.
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags