Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

11. júní 2020

Ríkið kaupir íbúðir með tekjulágum

Vaxtalaus lán fyrir tekjulága og þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn verða að öllum líkindum afgreidd frá Alþingi í dag. Um er að ræða frumvarp um lán þar sem ríkið ætlar að lána tekjulágum 20% af kaupverði fyrstu íbúðar, lánið er sérstaklega ætlað þeim sem ekki hafa náð að safna fyrir útborgun. Lánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum en 20% af söluverði kemur í hlut ríkisins þegar íbúðin er seld. Lánin eru háð því að lántakandinni eigi lögheimili í íbúðarhúsnæðinu og geti ekki leigt það út nema með samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt getur stofnunin gjaldfellt lánið.

Frumvarpið er liður í aðgerðumríkisstjórnarinnar sem lofað var til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með lífskjarasamningum. Í því er sjónum einkum beint að ungu fólki sem er að kaupa sína fyrstu eign en tekjur ungs fólks hafa lækkað miðað við aðra aldurshópa á sama tíma og fasteignaverð hefur hækkað.
Skipaður var átakshópur um aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Þar með hófst víðtækt samráð um húsnæðismál með aðkomu heildarsamtaka aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og forsætisráðuneytis sem hefur m.a. unnið að því að finna skynsamlegar leiðir og útfærslur á þeim til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu fasteignakaup.

Í frumvarpinu er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heimilað að veita svokölluð hlutdeildarlán til fyrstu kaupenda undir tilteknum tekjumörkum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa þó gagnrýnt tekjumörkin sem þykja of lág og telja að aðgerðin eigi að vera almenn og ná til allra. Í frumvarpinu eins og það er nú lagt fram er gert ráð fyrir að það nái til þeirra sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. á ári samanlagt fyrir hjón miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. 

Frumvarpið má finna á vef Alþingis.