Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. júní 2020

Stærðin hefur hjálpað okkur - viðtal við formann Sameykis

Viðtalið við Árna Stefán Jónsson formann Sameykis  birtist fyrst í blaði félagsins sem út kom í júní.

Stærðin hefur hjálpað okkur

Liðinn vetur var með þeim annasamari hjá félaginu. Ný sameinað félag lagði af stað í kjarasamningsgerð stuttu eftir að það leit dagsins ljós og samningaviðræðurnar urðu langar og strangar og lauk ekki fyrr en með verkfallsboðun 8000 félagsmanna ári síðar. Þá er ónefnt ástandið í samfélaginu sem kjarasamningarnir voru undirritaðir í. Stuttu fyrir undirskrift var eins og kunnugt er lýst yfir neyðarástandi í landinu vegna lífshættulegs heimsfaraldurs. Ástandið var svo alvarlegt að forstjóri Landspítala og hans fólk sáu ástæðu til að funda með fulltrúum í undanþágunefndum til þess að tryggja að allir gerðu sér grein fyrir alvarleika málsins, enda eru þeir rúmlega þúsund félagsmenn Sameykis sem starfa á spítalanum mikilvægir í þeirri neyðarþjónustu sem þar fer fram. Félagið tók strax þá afstöðu að veita undanþágur vegna alvarleika málsins en fulltrúar samninganefndanna upplifðu að bitið í verkfallsvopninu væri smátt og smátt að hverfa. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi haft margvísleg áhrif á síðustu vikur kjarabaráttunnar, meðal annars þannig að aflýsa þurfti sameiginlegum baráttufundi BSRB félaganna, þá var samstaðan mikil og baráttuandinn sterkur. Loks náðust svo samningar aðfaranótt mánudagsins 9. mars en þá var skrifað undir samning við ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Allir þessir samningar voru síðan samþykktir af félagsmönnum með góðum meirihluta.

Blaðamaður Sameykis náði Árna Stefáni Jónssyni formanni á hlaupum á milli funda í stutt spjall um þessa ævintýralegu nótt og fleira. Þegar þetta er skrifað er ósamið við 4 smærri aðila en Sameyki gerir alls kjarasamninga við 20 viðsemjendur að ótöldum stofnanasamningum. Beinast lá við að spyrja Árna að því hvernig honum hafi fundist takast til með samningana. „Svo ég segi það nú bara beint út þá er ég ánægður með sumt, annað minna og ekki ánægður með sumt. Tilfinningin er blendin. Það náðust nokkrir ansi góðir og stórir áfangar. Þar á ég sérstaklega við styttingu vinnuvikunnar, bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Ég er líka ánægður með launafyrirkomulagið, þar var lögð áhersla á þá lægstlaunuðustu. Það tókst að mörgu leyti mjög vel og ég held að útkoman hafi verið góð.“

Hefðum átt að kýla á verkfall fyrr
Hann sagðist hins vegar minna ánægður með hvernig samningafyrirkomulagið hafi þróast. „Þetta tók óhemju tíma, heilt ár. Ég veit ekki hvort það var einhverjum einum að kenna. Bæði voru verkefnin stór og flókin og svo hafði ríkið á að skipa tiltölulega nýrri samninganefnd sem var að stýra sínum fyrstu stóru samningum. Þau lögðu mikla áherslu á að gera hlutina á nýjan hátt og öðruvísi og voru stundum meira upptekin af því en að klára verkefnið.“ Hann nefnir einnig að nýtt fyrirkomulag hjá ríkissáttasemjara hafi haft áhrif á hversu langan tíma þetta tók, en það tekur tíma að stilla saman strengi og temja sér ný vinnubrögð. „Við fórum líka alltof seint í aðgerðir, kannski má kalla það mistök. Við hefðum átt að boða aðgerðir miklu fyrr. En við héldum alltaf í vonina um að þetta myndi klárast við samningaborðið án aðgerða. Þetta var flóknara en oft áður þar sem verið var að semja á tveimur borðum. Við stéttarfélögin sömdum um launaþáttinn og okkar sérmál en mörg stór mál sem snertu okkur öll voru á borði samninganefndar BSRB s.s. stytting vinnuvikunnar, jöfnun launa milli markaða o.fl.“
Árni segir að þetta fyrirkomulag hafi valdið því að upplifun samninganefndanna hafi verið sú að þau hafi ekki verið nægilega vel inni í málum og þurft að bíða eftir að verkefnið um styttingu vinnuvikunnar kláraðist því það var auðvitað ákveðin undirstaða í þessum samningum. „Í raun hefði þurft að hafa stærri hóp í þessari vinnu með BSRB. Þetta var alltof þröngur hópur sem var að vinna þetta. Ég tek það fram að ég er alls ekki að gagnrýna niðurstöðuna en við þurfum að skoða þetta fyrirkomulag og ég tel að Sameyki muni ekki fara inn í óbreytt fyrirkomulag.“

Kjarabarátta í heljargreipum heimsfaraldurs

Hann segist hafa verið óánægður með að hafa ekki getað klárað þetta eins og til stóð. „Við ætluðum okkur meira, sérstaklega gagnvart ríkinu. Við vildum ná meiri launahækkun og lengra í sambandi við jöfnun launa. Þá var ég einnig óánægður með að við skyldum þurfa að gefa eftir að hluta til lenginguna á vetrarorlofinu. Við vildum verja þann rétt sem við höfðum um að taka 25% álag á orlof sem fólk kýs að taka að vetri til. En fólk fær þó áfram lenginguna ef stjórnandi fer fram á að starfsmaður taki frí eða samþykkir það skriflega. Á móti kemur að nú búa allir við 30 daga orlofið, ég er ánægður með það. Þessar kröfur um breytingar komu ekki frá okkur heldur vegna nýrra laga um bann við mismunum vegna aldurs, þess vegna er ég ósáttur með að hafa þurft að gefa þetta eftir. Við vorum búin að boða til verkfalls og hefðum getað haldið því lengi úti ef heimsfaraldurinn hefði ekki komið til. Það var auðvitað allt komið í heljargreipar vegna Covid. Nóttina fyrir verkfall var allt gert til að ná samningum út af ástandinu. Þá var búið að lýsa yfir neyðarástandi í landinu og okkar samningsstaða mjög breytt, enda stór hópur okkar fólks í hópi þeirra sem einmitt heldur uppi þjónustu í landinu í slíku ástandi. Þetta fólk hefur staðið sig frábærlega þennan tíma.“

Brotið traust

Fleira liggur þungt á Árna. Hann segist aldrei áður hafa upplifað jafn mikið vantraust og óheiðarleika í kjarasamningsviðræðum. Við slíkar aðstæður segir hann að ríki ákveðið heiðursmannasamkomulag. Og þótt fólk sé sannarlega ósammála sé virðing og traust á milli fólks haft í hávegum. Það hafi ekki verið raunin í samskiptum þeirra við samninganefnd ríkisins. „Við í samninganefnd Sameykis upplifðum að við gætum ekki treyst orðum þeirra. Þetta upplifðu reyndar fleiri í samningaviðræðunum. Svo dæmi sé tekið þá lentum við í því, þegar verið var að ganga frá samningum þarna um nóttina, að það slæddist inn villa í textann sem samningarnefnd ríkisins neitaði að láta laga. Þetta var texti um fyrirkomulag yfirvinnu sem búið hafði verið að ganga frá við ótal marga aðila á undan okkur. Við höfðaum samþykkt að fylgja þeim bæði hvað varðar dagvinnu og yfirvinnu. Svo uppgötvast það tveimur dögum seinna að inn í samninginn var kominn texti um yfirvinnu dagvinnufólks sem við höfðum aldrei samþykkt. Formaður samninganefndarinnar neitaði að breyta þessu þrátt fyrir að þessi útfærsla hafi aldrei verið tekin til umræðu.“ Árni segir þetta vera með ólíkindum því það sé oft þannig að á lokametrunum í samningsgerðinni slæðist inn villa en þær séu alltaf leiðréttar enda sé um að ræða gagnkvæmt traust milli aðila. „Þessi villa er inni hjá öllum BSRB félögunum, segir Árni. „Þannig að ef þetta verður ekki lagað þá verður tvöfalt kerfi vegna yfirvinnu á sumum vinnustöðum, sem er algjörlega út í hött. BSRB hefur farið fram á formlegan fund með fjármálaráðherra til að ræða þetta atriði,“ segir Árni. Árni segir samskiptin hafa gengið betur við Reykjavíkurborg þótt hægt hafi gengið. Ríkið hafi verið erfiðast. Hjá ríkinu starfar stærsti hluti vaktavinnufólksins okkar. „Við sjáum að ef við skoðum kjarasamningsviðræður þetta árið að ríkið hefur verið langerfiðast við alla viðsemjendur. Lítum bara á hjúkrunarfræðingana sem lentu beint í Covid faraldrinum samningslausir. Þeir þurftu að hóta verkfalli til ná samningum við ríkið í miðjum heimsfaraldri, samningi sem var svo felldur af félagsmönnum. Þetta er náttúrulega ekki í lagi“ segir Árni og hristir höfuðið.

Annasamur vetur framundan

Nokkuð ljóst er að breytingar verða á stjórninni enda er hún nú samsett úr tveimur fyrrverandi stjórnum félaganna. Fækka mun verulega þar og von er á spennandi kosningu á aðalfundi í mars 2021. „Ég ætla rétt að vona að það séu margir sem hafi áhuga á að starfa í stjórn félagsins. En það er nóg að gera fram að því, haustið verður annasamt og spennandi. Við byrjum með trukki enda ekki vanþörf á því, þar sem búið er að færa allt sem átti að gera í vor fram á næsta haust og vetur. Aðalfundurinn verður í september, Stofnun ársins og málþingið í október og svo verður farið á kaf í vinnu við að undirbúa okkar fólk, trúnaðarmennina, við að vinna að styttingu vinnuvikunnar á sínum vinnustöðum.“ Þá nefnir hann einnig að áríðandi sé að byrja strax í haust að huga að undirbúningi aðalfundar 2021 því það þurfi að hnýta nokkra lausa enda og klára ákveðin mál í sameiningunn