Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

29. júní 2020

Skert starfshlutfall og tekjuskerðing í Covid

Stærstur hluti launafólks sem fór í skert starfshlutfall vegna COVID-19 faraldursins sótti um hlutabætur á móti skertu starfshlutfalli frá Vinnumálastofnun. Þetta kemur fram í könnun á áhrifum heimsfaraldursins á launafólk sem rannsóknarfyrirtækið Maskína vann fyrir BSRB og birt er á vef bandalagsins.

Alls sóttu tæplega 86 prósent þeirra sem lentu í þessari stöðu um hlutabætur. Á almenna vinnumarkaðinum var hlutfallið rúmlega 90 prósent en aðeins 26 prósent meðal opinberra starfsmanna.

Um fimmtungur þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðu að staða þeirra á vinnumarkaði hafi breyst frá því sem hún var í byrjun febrúar vegna COVID-19. Þegar aðeins er skoðaður sá hópur sem hafði orðið fyrir breytingum kom í ljós að um 12 prósent hafði verið sagt upp, 57 prósent störfuðu í skertu starfshlutfalli og 10 prósent voru í launalausu leyfi. Þá sögðu um 21 prósent að aðrar breytingar hafi orðið á stöðu þeirra, til dæmis að þau hafi verið færð til í starfi.

Af þeim sem störfuðu í skertu starfshlutfalli í faraldrinum sögðust um 74 prósent vinna í samræmi við nýtt starfshlutfall og rúmlega 16 prósent sögðust vinna minna en nýja starfshlutfallið sagði til um. Þá sögðust um 10 prósent vinna meira en það starfshlutfall sem þau fengu greitt frá launagreiðanda.

Tekjuskerðingar hjá mörgum
Um 9 prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust hafa orðið fyrir tekjuskerðingu án þess að starfshlutfall hafi verið lækkað eða þau misst vinnuna. Þar af höfðu tæplega 5 prósent misst fasta yfirvinnu, um 1 prósent misst fastar greiðslur umfram kjarasamning og rúmlega 3 prósent sögðu að laun hafi verið lækkuð.

Rannsóknin var unnin af rannsóknarfyrirtækinu Maskínu fyrir BSRB dagana 24. apríl til 4. maí. Markmiðið með rannsókninni var að meta áhrif COVID-19 heimsfaraldursins á líf og störf íslensks launafólks. Þátttakendur voru 1.050 talsins, 18 ára og eldri, allsstaðar að af landinu. Hópurinn sem tók þátt endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Hér má finna fleiri fréttir um niðurstöður rannsóknarinnar á vef BSRB

Könnun sýnir aukið álag í heimsfaraldrinum
Konur frekar heima þegar skólar skertu þjónustu
Langflestir í skertu starfshlutfalli fengu hlutabætur