Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. júlí 2020

Óvissan var erfuðust

Í nýafstöðnu neyðarástandi vegna Covid-19 faraldursins stóðu opinberir starfsmenn svo sannarlega vaktina og þurftu margir hverjir að vinna undir miklu álagi. Við sjáum það skýrt á þessum viðsjárverðu tímum hvernig okkar fólk nýtir krafta sína og þekkingu til að halda uppi sterku velferðarkerfi. Um það snúast störfin sannarlega alla daga en það er hins vegar á tímum sem þessum að almenningur sér hversu mikilvæg störfin eru, hversu stórt hlutverk opinberra starfsmanna í að varðveita og halda utan um fólkið í landinu er í raun og veru. Það voru margir sem upplifðu miklar breytingar á sínum störfum meðan á þessu stóð og aukið álag eins og fram hefur komið í könnun BSRB. Í blaði Sameykis sem kom út á dögunum var birt viðtal við  nokkra félagsmenn og fengum smá innsýn í það hvernig þeirra störf breyttust og hvernig þeim leið á meðan á neyðarástandinu stóð. Við munum birta þessi viðtöl hér á síðunni næstu daga.

Kári Sigurðsson er aðstoðarforstöðumaður í Hólmaseli í Breiðholti og einn þeirra sem varð að breyta starfinu sínu verulega í Covid-faraldrinum. Kári er með skrifstofuaðstöðu í Gerðubergi sem hann notar stundum og við settumst í sófahornið þar til að spjalla saman, í löglegri fjarlægð auðvitað. Í Hólmaseli er boðið upp á félagsstarf fyrir krakka í Öldusels- og Seljaskóla á aldrinum 10-16 ára. Aldurshópunum er skipt upp þannig að sérstakar opnanir eru fyrir krakka í 5-7 bekk og svo aðrar fyrir krakka í 8-10 bekk. Lögð er áhersla á forvarnarstarf, m.a. annars með því að stuðla að jákvæðum félagsþroska með margvíslegu tómstundastarfi. Þar starfa um 11 manns, sumir í fullu starfi en aðrir í hlutastarfi. Þegar ég spyr Kára út í líðanina í upphafi faraldursins segir hann að starfsmannahópurinn hafi reyndar verið saman í starfsmannaferð í Tallin í Eistlandi og ekki komið heim fyrr en 3. mars. Þá hafi verið komin nokkur Covid-smit í landinu en enginn gerði sér grein fyrir alvarleika málsins. Á þeim tíma var engin þörf fyrir þau að fara í sóttkví og heldur ekki margir farnir að spritta sig. „Það var svo viku seinna þegar við hittumst til að skipuleggja skíðaferð fyrir unglingana,“ segir Kári „að við áttuðum okkur á að þetta myndi hafa mikil áhrif á okkar störf. Þá voru skilaboðin frá landlækni þess efnis að fólk var hvatt til að sleppa óþörfum ferðum en það var alls ekkert bannað að fara. Við tókum hins vegar þá ákvörðun að fara ekki. Mörgum fannst það skrítið og voru ósáttir, þá.“ Ástandið versnaði og mikil óvissa tók við. Kári segir félagsmiðstöðvarnar í Breiðholtinu yfirleitt mjög vel sóttar. Þegar farið hafi verið að tala um fjöldatakmarkanir kom upp mikil óvissa um hvernig þau gætu haft opið. Hann segir þau aldrei hafa getað vitað hversu margir myndu koma í miðstöðina svo þetta var illa gerlegt. Þegar kom til fjöldatakmarkana var gerð tilraun til þess að stýra aðsókninni með því að bjóða einungis einum bekk, frá einum skóla, í einu. En þar sem þau sáu fram á að geta ekki komist yfir að bjóða öllum bekkjunum upp á opnanir út mars var farið að tala um að loka. „Svo var líka kominn uggur í starfsfólkið á þessum tímapunkti og margir foreldrar voru hreinlega farnir að halda krökkunum heima“ segir Kári. „Okkur fannst mörgum ástandið orðið mjög óþægilegt. Óvissan var verst!“


Stafrænar félagsmiðstöðvar

Í lok mars var síðan tekin sameiginleg ákvörðun hjá öllum félagsmiðstöðvum í Reykjavík um að loka en þeim var þess í stað breytt í stafrænar félagsmiðstöðvar. Samstarfið milli miðstöðvanna var mikið. Haldnir voru fjarfundir þar sem hugmyndum og efni var deilt. „Það er auðvitað ansi mikið að þurfa að breyta þessu á einni nóttu og fjarfundir eru kannski ekki endilega besta leiðin til þess að hafa hugmyndafundi segir Kári og glottir. „En við hjálpuðumst að og vorum með alls konar keppnir og áskoranir, t.d. ljósmynda- og teiknikeppni, streymdum tölvuleikjum og spili, starfsfólk eldaði einfalda rétti heima í beinni útsendingu fyrir krakkana, og svo vorum við dugleg að vera með hreyfiáskoranir til að hvetja þau til að hreyfa sig.

Ekki jafn auðvelt fyrir alla
Ein af áherslunum í starfi félagsmiðstöðvanna er að ná til krakka sem þurfa á stuðningi að halda. Kári segir þau hafa reynt að passa sérstaklega vel upp þann hóp meðan á lokunum stóð. Ástandið var miserfitt fyrir krakkana segir hann, bæði eru þau ólík og svo hafa þau mismunandi bakland. „Við finnum það núna þegar við höfum opnað aftur að þau hungrar í félagsstarf. Þau voru mörg orðin mjög félagsþyrst. Mætingin er yfirleitt rosalega góð í félagsmiðstöðvunum hér í Breiðholtinu. Maí er þó aldrei besti mánuðurinn. Kannski bara af því að mörg þeirra eru búin að vera hjá okkur allan veturinn og veðrið orðið gott. En núna þegar við opnuðum 4. maí varð algjör sprengja og mjög margir koma til okkar.“ „Við héldum stundum „house party“ með hjálp Zoom fundarbúnaðar þar sem krakkarnir gátu tekið þátt, séð hvert annað og okkur. Þetta var mjög óformlegt og stundum komu fáir en það var mikið spjallað og nokkrir höfðu gríðarlega þörf fyrir þetta spjall og að fá tíma með okkur.“ Kári segir erfitt að meta strax hvort kvíði og andleg líðan hafi versnað í ástandinu enda telur hann að það sé of snemmt að segja til um það. Hann segir þó að líklega muni, á næstu vikum, koma inn krakkar á allar félagsmiðstöðvar, sem þurfi mikla hjálp. „Unglingar eru margir hverjir mjög opnir og tjá sig um tilfinningar sínar og líðan“ segir Kári, „það er mjög mikil breyting frá árum áður. En við vitum samt auðvitað að það eru nokkrir sem áttu mjög erfiða tíma. Aðstæður á heimilum eru mismunandi og við vitum að barnaverndarmálum fjölgar í svona ástandi.“