15. júlí 2020
Tómir snillingar
Í nýafstöðnu neyðarástandi vegna Covid-19 faraldursins stóðu opinberir starfsmenn svo sannarlega vaktina og þurftu margir hverjir að vinna undir miklu álagi. Við sjáum það skýrt á þessum viðsjárverðu tímum hvernig okkar fólk nýtir krafta sína og þekkingu til að halda uppi sterku velferðarkerfi. Um það snúast störfin sannarlega alla daga en það er hins vegar á tímum sem þessum að almenningur sér hversu mikilvæg störfin eru, hversu stórt hlutverk opinberra starfsmanna í að varðveita og halda utan um fólkið í landinu er í raun og veru. Það voru margir sem upplifðu miklar breytingar á sínum störfum meðan á þessu stóð og aukið álag eins og fram hefur komið í könnun BSRB. Í blaði Sameykis sem kom út á dögunum var birt viðtal við nokkra félagsmenn og fengum smá innsýn í það hvernig þeirra störf breyttust og hvernig þeim leið á meðan á neyðarástandinu stóð. Við munum birta þessi viðtöl hér á síðunni næstu daga.
Guðrún Kristín Svavarsdóttir og Elísabet Katrín Friðriksdóttir starfa báðar sem rekstrarstjórar eldhúss Landspítalans. Þær eru tvær af þremur rekstrarstjórum en sá þriðji er yfir matsölunum. Eldhúsið er staðsett á Hringbraut og þjónar öllum spítalanum, sjúklingum og starfsfólki. Þar eru eldaðar um það bil 5000 máltíðir á dag og matur er sendur á 10 matsali s.s. Vífilstaði, Fossvoginn, Dalbraut, Landakot, Kópavog, Klepp og fleiri. Það eru 120 manns sem starfa í eldhúsunum og matsölunum og þar er yfirleitt opið frá hálfsjö á morgnana til átta á kvöldin. Flestir eru á 8 tíma vöktum en ekki eru þó allir í fullu starfi.
Undirbjuggu sig undir það versta
Á Landspítalanum starfa um 6000 manns á fjölmörgum stöðum í borginni. Um leið og Covid-19 faraldurinn skall á var spítalanum lokað fyrir öllum utanaðkomandi og mikill viðbúnaður viðhafður. Starfsfólkið hélt þó auðvitað áfram að mæta og álagið var miklu meira en vanalega. Í eldhúsinu á Hringbraut þar sem Guðrún og Elísabet starfa var starfshópnum strax skipt upp í tvær vaktir sem myndu aldrei hittast. Þær segjast hafa þurft að skipuleggja vinnuna þannig að þær gætu brugðist við því versta. Sjálfsafgreiðslunni í matsalnum var lokað og byrjað var að skammta matinn. Þannig var það fram til 25. maí. Þessar breytingar kölluðu á fleiri á færibandið til að skammta í bakka því það er eins og gefur að skilja er mikill fjöldi sem fær mat úr eldhúsinu. Samhliða þessum var matseðillinn einfaldaður mikið því það mátti alveg búast við því að einhver af annarri hvorri vaktinni myndi veikjast. Ef það gerðist yrði allur sá hópur að fara í sóttkví og því urðu þau að vera tilbúin að keyra þetta allt áfram með helmingi minni mannskap. „Samhliða þessu var búið að ganga frá samningi við aðila úti í bæ til að taka við hluta máltíðanna ef allt færi á versta veg,“ segir Guðrún. „Við urðum að hugsa þetta þannig“.
Vöktunum var breytt þannig að fólkið á hverri vakt vann frá klukkan sjö að morgni til hálf sjö á kvöldin, í tvo daga, fékk svo frí í tvo og aðra hverja helgi. Þær segjast hafa þurft að lengja vaktirnar hjá flestum. „Blessunarlega tókst þetta vel,“ segir Guðrún. „En þetta var mikið púsluspil hjá fólki því það er auðvitað flókið fyrir alla að breyta vinnutímanum sínum með svona skömmum fyrirvara.“ Elísabet tekur undir það og segir að andinn hafi verið þannig að allir voru tilbúnir að leggja mikið á sig. Þær segja það lykilatriði hversu vel samstarfið milli rekstrarstjóranna og verkefnastjóranna hafi gengið. Deildarstjórinn Sigrún Hallgrímsdóttir hafi verið regnhlífin yfir allt þetta skipulag og stjórnendateymið hafi unnið eins og einn maður allan tímann.
Ótrúleg samheldni og samvinna
„Samheldnin hjá starfsfólkinu var ótrúleg,“ segir Elísabet. „Í þessu nýja vaktafyrirkomlagi voru allir að vinna á sama tíma, en ekki skipta um vakt á átta tíma fresti. Þetta skapaði einhvern veginn gott andrúmsloft og meiri rólegheit þrátt fyrir mikið álag.“ Guðrún tekur undir þetta og segir að það hafi verið áberandi hvað allir hafi staðið saman og hjálpast að við verkefnin. Breytingarnar voru miklar en það tók enginn illa í þetta. „Auðvitað var þetta mikið rask hjá mörgum,“ segir hún. „Fólk þurfti að finna barnapössun vegna breytinga á vinnutíma og alls konar mál komu upp, en samheldnin var alltaf til staðar. Enginn kvartaði þótt margir hlakki auðvitað til að hlutirnir komist í sitt vanalega horf.“
Í starfsmannahópnum eru fjölskyldutengsl og alls konar vinatengsl og því reyndist ansi mikið púsl að að skipta hópnum. Þær segjast hafa setið við allan föstudaginn þann 13. mars við að skipuleggja þessar breytingar og hafa samband við fólkið. Skipulagið var heilmikið í kringum þetta og strax á mánudeginum á eftir gekk í gildi nýtt vaktaplan og nýtt skipulag. Þær segjast hafa hringt í allt sitt fólk til að ræða við það og segja þeim hvernig þetta yrði og fá samþykki þess fyrir breytingunum. Það tóku allir vel í þetta strax segja þær og allan þennan tíma kvartaði enginn. Þær segjast hafa beðið fólk í hópunum að hittast ekki utan vinnunnar. „Fólk var auðvitað undir álagi bæði í vinnu og heima fyrir,“ segir Guðrún sem fannst þetta stundum erfitt „en það voru bara allir í sama liði. Auðvitað kom ýmislegt upp á, fólk þurfti að redda börnum o.fl. Við reyndum að koma til móts við alla og allir reyndu að hjálpast að. Þetta var erfiðari staða núna því ömmur og afar voru ekkert öll að passa.“
Álagið var gífurlegt
Allir stjórnendur skiptu sér niður á vaktirnar og það gerðu þær Guðrún og Elísabet líka. Þær skiptu starfsmannahópnum niður í tvö teymi og hittust aldrei meðan á mesta fárinu stóð. Elísabet mætti á allar vaktirnar með sínum hópi en Guðrúnu Kristín þurfti fljótlega að færa vinnustöðina sína heim af heilsufarsástæðum. Elísabet viðurkennir að það hafi verið mikið álag á stafsfólki og stjórnendum á þessum tíma. „Ég átti til dæmis erfitt með að tengja við þennan Covid-doða sem fólk var að tala um og alla þessa facebook leiki,“ segir hún og hlær. „Það var mikill munur á okkar raunveruleika og þeirra sem voru sendir til að vinna heima eða höfðu jafnvel engin verkefni. Þessi tími hefur liðið mjög hratt. Mér finnst næstum eins og ég hafi misst af einhverju!“ Guðrún segir að erfiðast hafi verið að þurfa að vera heima, „að vera ekki í miðri aksjóninni“ eins og hún orðaði það. Hún tók fyrstu vaktirnar með hópnum sínum því það þurfti að breyta mjög miklu í skipulaginu. „Við urðum að finna nýtt fyrir komulag til að taka við vörum og senda frá okkur mat. Það mátti auðvitað enginn koma inn í eldhúsið. Sjálfskömmtunin var tekin af og við byrjuðum að skammta matinn til allra. Álagið var miklu meira á alla starfsmenn í eldhúsinu, það eru vel yfir þúsund manns í hádegismat.“ Guðrún fór síðan heim og vann þaðan og segir að það hafi verið verst hvernig tíminn rann saman. „Það voru engin tímamörk og það teygðist á vinnudeginum. Síminn minn var stundum svo heitur að ég setti hann inn í ísskáp“ segir Guðrún og skellir upp úr. „En auðvitað voru ákveðin verkefni sem var gott að vinna í næði.“
Saknaði fólksins
Þær eru sammála um að þessi tími hafi verið áskorun. „Við vorum til dæmis að ráða sumarstarfsfólk, við ráðum vanalega um 50-60 manns, og Guðrún tók starfsviðtölin heiman frá sér í gegnum Facetime“ segir Elísabet. Guðrún segir að það hafi „verið gott að geta unnið það verkefni í rólegheitunum heima því þar er minna áreiti. Á móti kom að það hafi verið mjög skrítið að vera ekki búin að hitta fólkið þegar það mætti til vinnu.“ Erfiðast fannst þeim að finna ekki lengur fyrir sömu nálægð við fólkið i kringum sig. Þær segjast báðar hafa saknað þess að hitta ekki vinnufélagana eins og áður. Elísabet hitti einungis helming starfsfólksins því hóparnir hittust ekkert og Guðrún hitti engan eftir að hún fór að vinna heima, hún segir það hafi verið mjög einmanalegt.