20. ágúst 2020
Atvinnulausir geti farið í nám án þess að missa bætur
Atvinnulausum verður heimilt að fara í nám án þess að missa atvinnuleysisbætur samkvæmt breytingum á lögum sem nú eru í vinnslu. Þessar breytingar eiga þó einungis við þá sem hafa verið atvinnulausir í lengri tíma. Úrræðinu verður beint að þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur verður gert kleift að hefja nám í framhalds- eða háskólum meðan þeir eru á atvinnuleysisbótum. Þar sem umsóknarfrestur er útrunninn bæði hjá háskólum og framhaldssskólum er nú verið að ræða leiðir til þess að opna fyrir nám sem yrði sérstaklega beint að þessum hópi.Um er að ræða breytingar svipaðar þeim sem gerðar voru í efnahagshruninu en verið er að leggja lokahönd á útfærsluna.
Atvinnuleysi var 8,8 prósent í lok júlí
Í skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í júlí kemur fram að í lok mánaðarins var það 8,8 prósent. Það hefur lækkað lítillega frá því í júní ef horft er samanlagt til almenns atvinnuleysis og þeirra sem eru á hlutabótum. Þeim sem eru á hlutabótum hefur fækkað en þeim sem fá almennar atvinnuleysisbætur hefur fjölgað. Samanlagt eru þetta rúmlega tuttugu og eitt þúsund manns. Spáð er lítilli aukningu á atvinnuleysi í ágúst og það verði um 9%.
Þegar horft er á skiptingu atvinnuleysis eftir landshlutum má sjá að eins og áður er það mest á Suðurnesjum, samanlagt 16,5%. Þar eru konur í meirihluta, en tæplega ein af hverjum fimm konum á vinnualdri á Suðurnesjum er atvinnulaus en þar er munur á atvinnuleysi karla og kvenna jafnframt mestur. Tæplega 15% karla eru þar án vinnu en nítján prósent kvenna.