21. ágúst 2020
Pistill frá formanni
Nú er sumarið liðið og vonandi hafið þið sem flest getað notið þess að ferðast með fjölskyldu og vinum innanlands. Á síðustu mánuðum höfum við öll farið í hraðferð gegnum breytingaferli í okkar störfum og persónulega lífi. Veturinn fram undan mun væntanlega bera einhvern keim af því sama. Við stöndum frammi fyrir því að skipuleggja verkefni vetrarins en við getum búist við að þau verða með öðrum hætti en áður og við getum verið þess fullviss að við þurfum að grípa til bæði sveigjanleika og aðlögunarhæfni. En það tvennt ásamt hæfileikanum á að afla sér nýrra þekkingar og nýta hana eru nokkrir af þeim þáttum sem þykja eftirsóknarverðir á framtíðarvinnumarkaðinum. Þannig að þrátt fyrir óvissuna getum við mögulega nýtt okkur þennan tíma og kannski höfum við þegar gert það? Hversu margir hafa ekki lært á nýjar aðferðir eða notað ný samskiptaforrit? Lært að panta vörur á netinu, notið tónlistar og menningarviðburða með rafrænum hætti og margt fleira. Ég held það sé mikilvægt að við nýtum þennan tíma á jákvæðan hátt og reyna þannig að vaxa í starfi og einkalífi.
Það er mikilvægt nú á þessum óvissutímum að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þess að styrkja enn fremur opinberan rekstur fjölga og opinberum störfum. Það hefur sýnt sig í þeirri alvarlegu heimskreppu sem riðið hefur yfir okkur að því sterkari sem velferðarkerfið er því betur getum við tekist á því áskoranir.
Óvissan veldur sannarlega vanlíðan hjá mörgum og það er mikilvægt að við gætum vel að heilsu okkar og þeirra sem næst okkur standa. Margir upplifa þreytu vegna óvissunnar en vonandi hafa sumarfríin verið með þeim hætti að flestir komi endurnærðir til baka.
Verkefni okkar á skrifstofu Sameykis snúast nú að stórum hluta um framkvæmd styttingu vinnuvikunnar á þeim fjölmörgu vinnustöðum þar sem félagsfólk okkar starfar. Nú strax í lok ágúst hefst námskeiðalota fyrir trúnaðarmenn þar sem við munum fara ítarlega í aðferðafræðina og vonandi gefa þeim þar þau tól og tæki sem á þarf að halda.
Reiknað er með framkvæmd styttingarinnar verði hafin úti á vinnustöðunum fyrir 1. október og henni lokið 1. janúar 2021.