Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

24. ágúst 2020

Tryggjum öryggi fólks - hækkum atvinnuleysisbætur

Í tillögum BSRB er snúa að aðgerðum stjórnvalda í tengslum við Covid er lögð áhersla á að stjórnvöld stuðli samhliða að því að tryggja félagslegan stöðugleika sem og efnahagslegan.  Meginmarkmið aðgerða ætti alltaf að vera að tryggja öryggi og heilsu fólks, sérstaklega í framlínustörfum, en einnig heilt yfir í vinnu og einkalífi. Þá er lögð áhersla á að gripið verði til markvissra aðgerða með jafnrétti að leiðarljósi til að tryggja afkomu fólks og að stjórnvöld gangi lengra í stuðningi við heimilin en nú hefur verið gert.

Atvinnuleysi hefur aukist mikið undanfarið vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónaveiru. Enn er mikil óvissa um framhaldið, en flestir spá því að atvinnuleysi muni aukast eitthvað áfram inn í haustið og veturinn. BSRB hefur kallað eftir því að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að þær fylgi launahækkunum kjarasamninga. Síðustu vikur hefur verið töluverð umræða um fjárhæð bótanna og lengd tímabils tekjutengingar. Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið á lofti að fólk þurfi fjárhagslega hvata til þess að halda út á vinnumarkaðinn að nýju og þess vegna megi bætur ekki vera of háar og að ekki eigi að hækka þær núna. Þau sjónarmið þykja okkur ekki nægileg enda stjórnist fólk ekki bara af fjárhagslegum hvötum heldur ýmsu fleiru, auk þess sem fjárhagsáhyggjur hafi mikil áhrif á andlega getu fólks ef von er á því að atvinnumissirinn leiði til þess að fólk lendi í fátækragildru. Lesa má meira um þessi mál á vef BSRB. 

Tillögur BSRB að aðgerðum vegna óvissu í tengslum við heimsfaraldur COVID-19

Heilbrigði og kjör framlínufólks
▪ Tryggja verður framlínufólki greiðslur í samræmi við aukið álag í starfi.

Í kjarasamningum opinberra starfsmanna er fjallað um heimild til að greiða starfsfólki önnur laun t.d. vegna starfstengds álags. Eðlilegt er að nýta þær heimildir við núverandi aðstæður. Sú leið hefur verið farin í Noregi þar sem álagsgreiðslur hafa verið hækkaðar.

Grípa þarf til fyrirbyggjandi aðgerða vegna langtímaáhrifa núverandi álags með því að tryggja fólki hvíld og endurheimt ásamt ráðgjöf og stuðningi frá sérfræðingum vegna hættu á sjúklegri streitu og kulnun. Framlínufólk hefur búið við viðvarandi aðhaldsaðgerðir ásamt miklu og vaxandi álagi til fjölda ára. Þetta viðvarandi álag hefur aukist verulega vegna COVID-19.
Þegar faraldurinn verður genginn yfir bíður þeirra að snúa aftur til þess álags sem fylgir þeirra daglegu störfum í starfsumhverfi sem einkennist af undirmönnun og óheilbrigðu vinnuálagi.

▪ Tryggja þarf að hallarekstri ríkissjóðs og sveitarfélaga verði ekki mætt með niðurskurði í opinberri þjónustu s.s. með lækkun launa, lækkuðu starfshlutfalli eða uppsögnum
starfsfólks.

Slíkur niðurskurður myndi bitna á heilsu og líðan starfsfólks sem hefur um lengri tíma verið undir miklu álagi vegna niðurskurðar í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 samhliða aukinni þjónustuþörf vegna fólksfjölgunar og hlutfallslegrar öldrunar  þjóðarinnar. Þá myndi slíkur niðurskurður valda auknum samfélagslegum kostnaði vegna kulnunar.

Rannsóknir sýna að niðurskurður í opinberri þjónustu hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér, sérstaklega á konur þar sem þær eru í meirihluta starfsfólks velferðarþjónustu og bera þyngri umönnunarbyrði vegna barna og ættingja. Þá sýna kannanir Gallup að sterk fylgni er á milli þess að vera með fjárhagsáhyggjur og í veikri stöðu á vinnumarkaði eða atvinnulaus. Fjárhagsáhyggjur hafa ekki einungis áhrif á lífsgæði fjölskyldna heldur sýnir könnun Gallup frá síðustu áramótum að þeir sem hafa miklar fjárhagsáhyggjur eru sjö sinnum líklegri til að
lenda í kulnun en þeir sem hafa litlar eða engar fjárhagsáhyggjur.

▪ Tryggja verður öryggi og heilbrigði framlínufólks með því að útvega viðeigandi öryggisog hlífðarfatnað.

Tryggja afkomu fólks

▪ Tryggja verður afkomu foreldra sem geta ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs eða þjónustu við börn sín og geta ekki sinnt starfi sínu í fjarvinnu. Úrræðið taki mið af fyrirkomulagi varðandi laun í sóttkví.

Í Noregi voru greiðslur til foreldra vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna tvöfaldaðar vegna faraldursins. Þar á hvort foreldri um sig rétt á 20 dögum fyrir 1-2 börn og 30 dögum ef börnin eru þrjú eða fleiri. Einstæðir foreldrar eiga rétt á 40 dögum fyrir 1-2 börn og 60 dögum ef börnin eru þrjú eða fleiri. Í Svíþjóð er verið að undirbúa svipað úrræði innan VAB (Vård av barn).

▪ Tryggja verður afkomu einstaklinga sem eru frá vinnu vegna aukinnar áhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, eða eiga börn með undirliggjandi sjúkdóma og eru heima samkvæmt tilmælum læknis. Úrræðið taki mið af fyrirkomulagi varðandi laun í sóttkví.
Greiðslur til einstaklinga sem eru í sjálfsskipaðri sóttkví vegna undirliggjandi sjúkdóma hafa verið tryggðar í Svíþjóð.

▪ Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.
Þann 1. janúar 2020 hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur um 9.790 kr. BSRB leggur til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með 1. janúar 2020 (í stað 9.790 kr.) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl 2020. Nauðsynlegt er að fjárhæðir atvinnuleysisbóta fylgi launahækkunum kjarasamninga. Atvinnuleysi hefur aukist mikið á síðustu misserum og var 5 prósent áður en áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta í íslensku efnahagslífi og á eftir að aukast verulega. Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg til að treysta megi afkomu þeirra sem missa atvinnuna.

▪ Tryggja verður afkomu launafólks sem á hvorki rétt til launa né réttindi í samtryggingarsjóðum með tímabundnum undanþágum á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni.

▪ Elli- og örorkulífeyrir verði hækkaður.
Þann 1. janúar 2020 hækkuðu greiðslur ellilífeyrisþega sem búa með öðrum um 8.700 kr. á mánuði og um tæplega 10.900 kr. hjá þeim sem búa einir. Lágmarksframfærslutrygging örorkulífeyrisþega hækkaði með svipuðum hætti. BSRB leggur til að almannatryggingar verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með 1. janúar 2020 (í stað hækkunarinnar sl. áramót) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl 2020. Fyrir liggja upplýsingar um að verst stöddu ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar séu í þeim hópi sem er hvað hættast við því að lenda í fátækt. Nauðsynlegt er að
fjárhæðir almannatrygginga fylgi launahækkunum kjarasamninga til að draga úr ójöfnuði og til að tryggja megi afkomu fólks.

▪ Gerð verði greining á stöðu viðkvæmra hópa og tryggt að grunnþörfum þeirra verði mætt.


▪ Tryggja verður að allir opinberir aðilar sem veita lán eða innheimta hvers kyns greiðslur
komi til móts við einstaklinga með rýmri greiðslufrestum og leiti allra leiða til að koma
til móts við þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum með sanngjörnum hætti.

▪ Tryggja verður stuðning til tekjulægri fjölskyldna vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna.
Margar fjölskyldur standa frammi fyrir tekjufalli og munu eiga erfiðara með að standa straum af íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna þegar það kemst aftur í fulla virkni. Íþrótta- og tómstundastarf er ekki aðeins mikilvægt fyrir heilsu og þroska barna heldur einnig fyrir félagslega þátttöku þeirra og getur þannig verið börnum vörn í því umróti sem er framundan. Því er mikilvægt að tryggja að börn geti haldið áfram í íþrótta- og tómstundastarfi þrátt fyrir versnandi hag fjölskyldna þeirra.

Fjárfesting til framtíðar
▪ Stjórnvöld leggi áherslu á jafna möguleika og jöfn tækifæri kvenna og karla í uppbyggingu vinnumarkaðsaðgerða og sköpun starfa.

 Efnahagssamdrátturinn nú er ólíkur þeim síðasta sem hófst haustið 2008 þar sem byggingariðnaðurinn mætti mestu áskorununum. Nú eru áskoranirnar mestar í ferðamannaiðnaðinum og afleiddum greinum þar sem mun hærra hlutfall kvenna starfar.

▪ Fjárfest verði til framtíðar með auknum framlögum til heilbrigðis- og félagsþjónustu og til menntakerfisins.
Fjárfesting í slíkri opinberri þjónustu skapar fleiri störf en fjárfestingar fyrir sambærilegar fjárhæðir í framkvæmdum, samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð var í sjö aðildarríkjum OECD. Niðurstöðurnar sýndu að fleiri störf skapast með framlögum til opinberrar þjónustu því nánast öll framlögin fara beint í launakostnað. Kynjaáhrifin af slíkri fjárfestingu eru einnig mjög jákvæð. Meginástæðurnar eru hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er en þrátt fyrir háa atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi er um þriðjungur þeirra í hlutastarfi vegna ábyrgðar á börnum og/eða ættingjum eða reksturs heimilis. Í samanburði við önnur Evrópulönd eru aðstandendur á Íslandi undir mestu álagi allra vegna umönnunar óvinnufærra ættingja, öryrkja eða aldraðra en það eru konur sem axla megin ábyrgðina.

Ef störf eru sköpuð í umönnun, heilbrigðisþjónustu og á leikskóla- og grunnskólastigi minnkar munur á atvinnuþátttöku karla og kvenna. Karlmenn eru einnig líklegri til þess að taka að sér störf í umönnun en konur í byggingariðnaði. Með því að fjárfesta í umönnun og velferð skapast einnig fleiri afleidd störf. Það er meðal annars vegna þess að einstaklingar sem sinna ólaunuðum umönnunarstörfum geta í meira mæli hafið eða aukið atvinnuþátttöku þegar ríki og sveitarfélög tryggja umönnun og þjónustu við börn, aldraða og fatlað fólk. Fleiri fara því að vinna fyrir tekjum og greiða skatta, eftirspurn eykst, sem og jöfnuður og kynjajafnrétti. Atvinnutækifærum fólks af erlendum uppruna mun einnig fjölga við slíkar aðgerðir, sérstaklega meðal kvenna.

▪ Fjárfest verði í menntun í greinum innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfisins.
Greinarnar búa nú þegar við alvarlegan skort á starfsfólki eða fyrirséð er að það verði erfitt að tryggja mönnun í til framtíðar. Í þessu sambandi má nefna starfsstéttir eins og t.d. sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, skólaliða, leik- og grunnskólakennara, stuðningsfulltrúa á öllum skólastigum, félagsliða, tómstunda- og félagsmálafræðinga og frístundaleiðbeinendur. Þörf er á uppbyggingu til að mæta viðvarandi undirmönnun, aðhaldskröfu og óheilbrigðu vinnuálagi þeirra sem nú sinna störfunum.

▪ Endurmenntun starfsfólks samhliða innleiðingu Stafræns Íslands verði tryggð.
Aukin tæknivæðing mun óhjákvæmilega hafa í för með sér verulegar breytingar á störfum fjölmargra. Tryggja þar starfsfólki endurmenntun og viðeigandi færni til að sinna breyttum störfum eða bjóða þeim annars konar menntun og/eða störf á öðrum sambærilegum vettvangi.

▪ Framlög til nýsköpunar, rannsókna, skapandi greina, grænna lausna og námsmanna verði aukin.
Mikilvægt er að nýta þá stöðu sem nú er uppi til að efla nýsköpun og rannsóknir til framtíðar. Aukið fé til sjóða á þessum sviðum er fljótvirk leið til að skapa störf á fjölbreyttum sviðum og leggja grunn að efnahagslegri og samfélagslegri verðmætasköpun til framtíðar.

▪ Aukið fé verði sett í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum.
Ísland, eins og aðrar þjóðir, þarf að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar umfram 1,5°C. Mikilvægt er að fjármagna þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig er hægt að auka framkvæmdastig í landinu með framkvæmdum sem margborga sig til lengri tíma.

▪ Stjórnvöld auki framlög sín til uppbyggingar almennra íbúða.
Þar með skapast fjölmörg störf á sviði mannvirkjagerðar og möguleiki til að tryggja betur húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjutíundum með auknu framboði af
íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðismarkað í mars 2020 er bent á að mikill samdráttur sé í fjölda íbúða í
byggingu og því mikilvægt að tryggja að ekki myndist húsnæðisskortur innan fárra ára.

Í skýrslu Kolbeins H. Stefánssonar fyrir Velferðarvaktina 2019, Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016, er bent á að staðan á húsnæðismarkaði hefur áhrif á lífskjör barna. Munurinn á lágtekjuhlutföllum barna fyrir og eftir húsnæðiskostnað er með meira móti hér í samanburði við önnur Evrópulönd. Það að búa í leiguhúsnæði felur í sér auknar líkur á því að búa við fjárhagsþrengingar sem og að vera undir lágtekjumörkum að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar. Húsnæðiskostnaðurinn hefur sérstaklega áhrif á fátækt á meðal barna einstæðra foreldra og öryrkja.

▪ Stjórnvöld hraði uppbyggingu á Borgarlínu.
Borgarlína mun auðvelda að markmið náist um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030. Hún er einnig mikilvæg samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið og lífskjarabót fyrir almenning á svæðinu.

▪ Stjórnvöld auki framlög sín til viðhalds, endurbóta og byggingar húsnæðis
heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Mikil viðhaldsþörf er á slíku húsnæði og margar af þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru hafa þegar verið undirbúnar og því er auðvelt að hefja framkvæmdir fljótlega.

Eftirlit og skilyrði fyrir stuðningi til fyrirtækja
▪ Eftirlit með hlutabótaúrræði og greiðslum í sóttkví verði eflt og styrkt.

▪ Fyrirtæki sem nýta sér stuðning stjórnvalda geti ekki greitt út arð eða bónusa né keypt eigin hlutabréf.

Tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga
▪ Tímabundinn samdráttur á tekjum hins opinbera dragi ekki úr getu til að fjármagna þjónustu fyrir borgarana

Það alvarlega efnahagsástand sem nú ríkir mun leiða til lægri tekna ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægt er að þau tímabundnu áhrif dragi ekki úr getu hins opinbera til að fjármagna nauðsynlega opinbera þjónustu, tilfærslur og fjárfestingar. Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur leitt enn betur í ljós mikilvægi þess að fjármagna með fullnægjandi hætti grunnstoðir samfélagsins t.d. heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, félagsþjónustu, löggæslu, slökkvilið, sjúkraflutninga, sorphirðu, almenningssamgöngur og opinbera stjórnsýslu. Þá hafa válynd veður á yfirstandandi vetri leitt í ljós hversu alvarlegar afleiðingar það hefur að vanrækja nauðsynlega innviðauppbyggingu. Tímabundinn hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga er óumflýjanlegur, en þann halla má ekki greiða niður á kostnað ofangreindra þátta heldur verður að fjármagna hann til lengri tíma með tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga