1. september 2020
Sameyki harmar stöðu mála á Suðurnesjum
Sameyki stéttarfélag harmar þá stöðu sem upp er komin hjá félagsmönnum þess á Reykjanesi nú þegar Isavia og Fríhöfnin hafa sagt upp næstum 200 manns síðustu daga til viðbótar þeim sem áður höfðu fengið uppsagnir eða lækkað starfshlutfall.
Það er mikið áfall að stór fyrirtæki á borð við þessi tvö missi verkefni sín svo til á einu bretti. En það er hins vegar mikilvægt að þau sýni samfélagslega ábyrgð og komi til móts við starfsfólk sitt eins og kostur er meðan þetta tímabundna ástand varir. Mannauður hvers fyrirtækis er mikilvægur og sú þekking sem skapast hefur hjá starfsfólki tekur langan tíma að byggja upp aftur. Sameyki stéttarfélag hvetur Isavia og Fríhöfnina til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins og kostur er.
Staða okkar fólks er flókin og óvissan mikil á meðan beðið er eftir að hægt verði að hefja vinnu á flugstöðinni að nýju. Þessi hópur bætist við þann stóra hóp sem þegar er atvinnulaus á Reykjanesi og nú sem aldrei fyrr er mikilvægt fyrir stjórnvöld að grípa inn í og skapa störf við hæfi. Í júlí mældist atvinnuleysi á Suðurnesjum 16,5 % en meira meðal kvenna eða allt upp í 19%, sem er með því mesta sem við höfum séð. Atvinnuleysi meðal kvenna hefur aukist hraðar en karla og byggingarframkvæmdir og ný hafnarmannvirki munu ekki ná að virkja þann hóp til atvinnuþátttöku.
Hlutfall þeirra sem hafa verið atvinnulausir í 6 mánuði og lengur mun næstu vikur og mánuði hækka töluvert og því mikilvægt að stjórnvöld beiti sér með markvissum hætti til að tryggja afkomu þessa fólks. Það má gera með sköpun nýrra starfa, lengingu á tekjutengdum atvinnuleysisbótum og síðast en ekki síst hækkun atvinnuleysisbóta sem er eitt stærsta hagsmunamál þessa hóps.
Sameyki hafnar því að hækkun atvinnuleysisbóta leiði til þess að fólk velji sér að lifa á bótum. Það velur sér enginn að missa vinnuna!