Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. október 2020

Stofnanir ársins eru ...

Stofnanir ársins 2020 eru Norðlingaskóli, Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Jafnréttisstofa. Hástökkvarar ársins eru Umhverfis-og skipulagssvið og Sjálfsbjargarheimilið.

Valið á Stofnun ársins 2020 var tilkynnt í gegnum streymi fyrr í dag en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna í könnun Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.

Könnunin náði til um 12 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur til að gera vel í starfsmannamálum og að auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.

Niðurstöðurnar voru kynntar að loknu vel heppnuðu málþingi um framtíðarvinnumarkaðinn sem haldið var í tengslum við afhendingu viðurkenninganna til Stofnana ársins. Viðburðurinn var sendur út í streymi frá Hilton Nordica þar sem Bergur Ebbi, Guðfinna Harðardóttir, Huginn Freyr Þorsteinsson og Karl Sigurðsson fjölluðu meðal annars um þá færni sem við þurfum til framtíðar og hvernig styðja má við starfsfólk og stjórnendur á umbreytingatímum.

Eftirfarandi stofnanir hljóta titilinn Stofnun ársins og Stofnun ársins – borg og bær en þeim er skipt niður eftir stærð stofnunarinnar.

Stofnun ársins 2020 - borg og bær
Norðlingaskóli (50 starfsmenn eða fleiri)
Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar (Færri en 50 starfsmenn)

Hástökkvari ársins 2020
Umhverfis-og skipulagssvið Reykjavíkurborgar 

Stofnun ársins 2020 - ríki, sjálfseignarstofnanir o.fl.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands (Fleiri en 50 starfsmenn)
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (20–49 starfsmenn)
Jafnréttisstofa (Færri en 20 starfsmenn)

Hástökkvari ársins 2020
Sjálfsbjargarheimilið


Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu óskar starfsmönnum og stjórnendum innilega til hamingju með glæsilegan árangur og óskar þeim alls hins besta í framtíðinni.

Nánari upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar