7. desember 2020
Bjarg byggir nýjar íbúðir á Selfossi
Tölvugerð mynd af húsi við Heiðarstekk á Selfossi.
Fyrsta skóflustungan var tekin á Selfossi 4. desember sl., að 28 nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir. Íbúðirnar eru í tveimur nýjum fjölbýlishúsum við Heiðarstekk 1 og 3 og um er að ræða svokölluð kubbahús. Þau eru vistvæn og endingargóð íslensk timburhús sem hönnuð eru fyrir íslenskt veðurfar.
Haft er eftir Árna Stefáni Jónssyni, formanni Sameykis og stjórnarformanni Bjargs, að því er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði og því eru þessar nýju íbúðir félagsins mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn.
Húsin eru byggð af SG hús verktökum og arkitekt þeirra er Svava Jóns slf. Reiknað er með að fyrra húsið verði komið í útleigu í júní 2021 og það síðara í október sama ár.
Opið er fyrir umsóknir nú þegar fyrir leigu í þessum húsum. Umsóknir og nánari upplýsingar um úthlutun og íbúðirnar má finna hér.
Fyrsta skóflustungan tekin í sólríkri norðan átt. Frá vinstri: Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, Tómas Ellert Tómasson, yfirverkfræðingur hjá SG húsum, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis og stjórnarformaður Bjargs, Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar og Baldur Pálsson, framkvæmdastjóri SG húsa.