8. desember 2020
Flestir leikskólar í Reykjavík í 36 stunda vinnuviku
„Það er auðvitað ögrandi verkefni að skipuleggja fjarveru starfsmanna á hverjum degi,“ segir Særún Ármannsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Hofi í Reykjavík.
„Við á leikskólanum Hofi tókum þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá borginni og vissum því vel hvað við vorum að fara út í þegar kom að því að stytta vinnuvikuna nú í haust,“ segir Særún Ármannsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Hofi í Reykjavík.
Auk þess að hafa innleitt styttinguna á eigin leikskóla hefur Særún, ásamt öðrum reynslumiklum leikskólastjórum, aðstoðað stjórnendur á öðrum leikskólum borgarinnar og víðar um land við að innleiða styttingu vinnuvikunnar. Niðurstaðan er sú að lang flestir leikskólar borgarinnar eru langt komnir í umbótasamtali og ætla að stytta vinnuvikuna í 36 stundir.
„Stjórnendur í leikskólum borgarinnar eru á ólíkum stað í ferlinu. Flestir eru tilbúnir í þetta en sumir sjá ekki hvernig þetta getur gengið upp,“ segir Særún. „Það er auðvitað ögrandi verkefni að skipuleggja fjarveru starfsmanna á hverjum degi,“ segir hún. Þar sé mikilvægast að búa til fast kerfi þar sem gert sé ráð fyrir fjarverunni frekar en að þurfa alltaf að slökkva elda á hverjum degi eða í hverri viku.
Hætta á hádegi einn dag í viku
Á flestum leikskólum virðist sem niðurstaðan verði svipuð og á Hofi, að hver starfmaður í fullu starfi hætti klukkan 13 einn dag í viku, sem er þriggja klukkustunda stytting. Við það bætist ein klukkustund sem starfsmenn safna upp og taka þegar hentar bæði þeim og starfseminni. Það gæti til dæmis verið í tengslum við vetrarfrí í grunnskólum, til að lengja helgar eða á annan hátt, segir Særún. Hún segir þetta koma betur út en að fólk hætti klukkan 12, enda sé erfitt að missa fólk út fyrir hádegismat barnanna.
Starfsfólkið á Hofi tekur ekki eiginlega kaffitíma en fær 30 mínútna hádegismat þar sem það sleppur við allt áreiti. Að auki getur starfsfólkið skroppið á kaffistofuna og fengið sér kaffibolla, vatnsglas eða eitthvað í svanginn eftir því sem verkefnin bjóða upp á, segir Særún. Hún segir þetta fyrirkomulag hafa gefist vel í tilraunaverkefninu og starfsfólkið hafi verið ánægt.
Annað sem þarf að huga að er að ná utan um skreppin, segir Særún. Það sé mjög mikilvægt að starfsfólkið sé alltaf með sína styttingu á sama degi til að allir geti skipulagt sín skrepp á þeim tíma, hvort sem það eru tannlæknaheimsóknir, ferð á hárgreiðslustofu eða annað sem gott er að gera á dagvinnutíma. Tilraunaverkefninu lauk í lok ágúst 2019 og starfsmenn leikskólans Hofs biðu óþreyjufullir eftir því að ákvæði um styttingu vinnuvikunnar kæmi inn í kjarasamninga. „Það var sorg í starfsmannahópnum þegar við misstum styttinguna svo við fögnuðum auðvitað mikið þegar samningarnir voru samþykktir með ákvæði um styttingu vinnuvikunnar,“ segir Særún. Starfsfólk og stjórnendur leikskólans voru því vel undir það búin að taka samtalið um hvernig útfæra ætti styttinguna og hún þegar byrjuð á Hofi.
Bitnar hvorki á þjónustu né faglegu starfi
Særún segir mjög mikilvægt að halda því til haga að þjónustan muni ekki skerðast á neinn hátt við styttinguna og hún bitni ekki á faglegu starfi skólans. „Börnin eru hér alla daga eins og áður en við höfum þurft að breyta dagskipulaginu okkar. Að morgni þegar allt starfsfólkið er í húsi erum við í hópastarfinu og það er meiri þungi í starfinu. Eftir hádegi þegar börnin hafa matast og hvílt sig tekur við útivera eða frjáls leikur inni á deild,“ segir hún.
„Auðvitað vonast ég svo til þess að þegar vinnudagurinn styttist hjá fleiri hópum þá fari vinnudagur skólabarnanna okkar að styttast líka. Vonandi geta þá fleiri foreldrar sótt börnin sín fyrr og nýtt styttingu vinnuvikunnar til meiri samvista við börnin,“ segir Særún.
Hægt er að kynna sér allt um styttinguna á vefnum styttri.is og á betrivinnutimi.is.