Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

16. desember 2020

Vandræði hjá þeim sem ekki virða innleiðingarferlið

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri kjaramála og reksturs hjá Sameyki

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri  kjaramála og reksturs hjá Sameyki sagði í erindi sínu á fundi Trúnaðarmannaráðs í gær að enginn afsláttur verði gefinn á styttingu vinnuvikunnar og engar hjáleiðir verða virtar.

Hann fór yfir styttingu vinnuvikunnar og framkvæmd hennar. Kjarni málsins er umbótastarfið og hvernig styttingin er innleidd án þess að skerða þjónustu stofnana né laun starfsfólks.

Þær stofnanir sem hafa fylkt umbótaleiðinni, sem eru samtals 8 þrep, hafa gengið vel og niðurstaðan hefur verið jákvæð enda er fólk að greiða atkvæði um það sem það hefur sjálft ákveðið.


Áhyggjur af innleiðingarferlinu
Þetta hefur gengið illa þar sem vinnustaðir hafa ekki fylkt þessum skrefum og leiðbeiningum. Hann tók dæmi um hvernig vinnudagur er t.d. styttur í lok dags þegar vinnutíminn er frá 08:-15:12. Það eru 48 mínútur á dag eða 4 klukkustundir á viku.

Fréttirnar frá sveitarfélögunum er því miður ekki uppörvandi því upplýsingar um styttingu vinnuvikunnar berast ekki. Hjá Reykjavíkurborg er það helst að frétta af styttingu vinnuvikunnar að innleiðingarferlið mjakast áfram og góðar fréttir eru að berast. Þó  hefur Sameyki enn nokkrar áhyggjur af innleiðingarferlinu þar því upplýsingar frá einstaka vinnustöðum er enn of fáar. Vonast er til þess að þær upplýsingar detti inn öðru hvoru megin við helgina Gleðilegt var að sjá viðbrögð fundargesta við þessu erindi í rauntíma sem starfa hjá Reykjavíkurborg því margir staðfestu að vel væri að verki staðið hjá þeim.

Í ferli þeirra rúmlega 30 ríkisstofnana sem búnar eru að skila niðurstöðum til BSRB er 36 tíma styttingin meginstefið og eru það góðar fréttir.  Líklega bíða einhverjar stofnanir eftir staðfestingu frá sínu fagráðuneyti og kann það að skýra einhverjar tafir. En við væntum þess að tilkynningar um upptöku 36 tíma vinnuviku bunkist inn í þessari viku. .

 

Sjálfkrafa stytting útilokuð
Þórarinn benti fundargestum á að tíminn flýgur áfram og mikilvægt er að þær ríkisstofnanir og sveitarfélög sem eiga eftir að innleiða styttingu vinnuvikunnar geri það. „Við sjáum að þær stofnanir og sveitarfélög sem ekki hafa virt innleiðingarferlið hafa lent í vandræðum með að stytta vinnuvikuna,“ sagði hann.

Þórarinn sagði enn fremur að engin sjálfvirkni taki við. Ekki er um að ræða að stofnanir og sveitarfélög láti reka á reiðanum hvernig styttingu vinnuvikunnar er háttað. „Ekki verða tekin upp sjálfkrafa stytting. Það er í okkar huga útilokað. Enginn afsláttur verði gefinn á innleiðingu styttingu vinnuvikunnar. Okkar markmið samkvæmt kjarasamningi er að stytta vinnuvikuna úr 40 klukkustundum í 36 klukkustundir án nokkurrar skerðingar á þjónustu né launalækkana,“ sagði Þórarinn. Sameyki mun standa vörð um gerðan kjarasamning og sjá til þess að ríkisstofnanir og sveitarfélög virði gerðan kjarasamning.

Sameyki hefur óskað eftir því við sjálfseignarstofnanir að þær skili inn greinargerð um styttingu vinnuvikunnar. Þeir vinnustaðir þar sem er unnin vaktavinna munu, eins og áður hefur komið fram, taka upp styttri vinnuviku þann 1.maí 2021.

Sameyki mun bjóða félagsmönnum sérstaklega á námskeið og leiðsögn í því verkefni eftir áramót.