Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

18. desember 2020

Kæru félagar!

Árni Stefán Jónsson og Garðar Hilmarsson

Nú um áramótin blasir við okkur nýr veruleiki! Stytting vinnuvikunnar um fjórar klukkustundir hjá allflestum félagsmönnum Sameykis. Við höfum í mörg ár barist fyrir þessari breytingu sem mun án alls efa bæta íslenskt samfélag. Í kjarasamningunum var það okkar helsta markmið að stytta vinnuvikuna í 36 klukkustundir án skerðingar neysluhléa og án skerðingar launa. Um þetta náðist sátt.

Í þessum samningum um bætt kjör opinberra starfsmanna hefur þó gætt misskilnings og rangtúlkunar varðandi neysluhléin. Við hjá Sameyki viljum standa vörð um að neysluhléin séu óbreytt eftir sem áður. Eina breytingin sé sú að hér eftir verði neysluhléin nú tekin á vinnustaðnum, í vinnutímanum. Þetta þýðir að ekki er hægt að yfirgefa vinnustaðinn í hádegishléi heldur er hléið tekið á vinnustaðnum. Um þetta náðist sátt.

Sameyki er með öðrum orðum búið að semja um 36 stunda vinnuviku með neysluhléum. Það er ekki rétt að um það þurfi að endursemja heldur þarf að ná samkomulagi innan hvers vinnustaðar um það hvernig stytting vinnuvikunnar verður útfærð. Starfsmennirnir, ásamt stjórnanda á vinnustaðnum, kjósa sjálfir um útfærsluna. Ef félaga okkar vantar aðstoð og ráðleggingar við útfærslu styttingu vinnuvikunnar á viðkomandi vinnustað geta þeir leitað aðstoðar hjá Sameyki. Samkomulagið um styttingu vinnuvikunnar er mikil kjarabót og nýlunda á íslenskum vinnumarkaði. Um er að ræða mikilvægt umbótasamtal milli atvinnurekanda og starfsmanna sem þýðir vinnustaðalýðræði. Um þetta náðist sátt.

Sett markmið stéttarfélagsins í þessum kjarasamningum var að bæta vinnustaðamenninguna og auka lífsgæði félagsmanna án þess að minnka afköst vinnustaðanna. Með því að stytta vinnuvikuna úr 40 klukkustundum í 36 klukkustundir munum við virða gerða kjarasamninga og auka verðmæti þeirra. Það er því mikilvægt að félagar Sameykis taki þátt í þessu umbótasamtali og rækti það áfram því bætt vinnustaðamenning er til heilla fyrir alla.

Um félaga okkar sem vinna vaktavinnu er þó öðruvísi farið. Eins og kemur fram hér að ofan er miðað við að stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki taki gildi um áramótin, þ.e. þann 1. janúar 2021. Hjá vaktavinnufólki tekur stytting vinnuvikunnar þó ekki gildi fyrr en 1. maí 2021. Ástæðan er sú að það er miklu flóknara og erfiðara að skipuleggja styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki heldur en hjá dagvinnufólki.

Árið, sem nú er senn á enda, hefur verið okkur öllum erfitt. Álagið í starfi félagsmanna Sameykis hefur aukist mikið og breytingar á okkar dagalega lífi hafa oft á tíðum verið þungbærar. Vonandi sjáum við brátt fyrir endann á þessum faraldri eins og nýjustu fréttir herma.

Við óskum þess að félagsmenn Sameykis, hvar sem þeir eru staddir í sínum störfum, eigi gleðileg jól.


Árni Stefán Jónsson, formaður
Garðar Hilmarsson, varaformaður