29. desember 2020
Litið um öxl
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameyki
Á þessum sögulegu tímum sem við lifum nú er rétt að líta aðeins um öxl yfir þetta sérstaka ár, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Það hefur verið mikil áskorun fyrir okkur öll að lifa þessa tíma.
Árið hófst strax með áframhaldandi samningafundum sem höfðu staðið yfir í tíu mánuði við viðsemjendur. Svo tók við – pestin. Á þessu mikla farsóttarári hefur Sameyki unnið hörðum höndum að þeim þjóðfélagslegu umbótum við ríki og sveitarfélög að stytta vinnuvikuna.
Á Þorra fóru fram stífar kjaraviðræður við ríkið, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, Strætó, Orkuveituna, Isavia ofl. Farið var í fundarherferð á vinnustöðum félagsmanna og rætt um stöðuna í kjaraviðræðunum og afstöðu félagsfólks til mögulegra aðgerða til að þrýsta á um að samningar næðust. Félagsfólk var tilbúið í aðgerðir.
Þann 30. janúar var haldinn samstöðufundur með yfirskriftinni, Hingað og ekki lengra, í Háskólabíói þar sem opinberir starfsmenn kröfðust þess að ríki og sveitarfélög gengu tafarlaust til samninga við starfsfólk sitt sem höfðu verið lausir í tíu mánuði. Fundarherferð var skipulögð um land allt. Vel var mætt á þessa baráttufundi sem endurspeglaði vilja félagsmanna og undirtektir við kröfugerð Sameykis fyrir bættum kjörum og styttingu vinnuvikunnar.
Í tengslum við Stofnun ársins undirritaði Sameyki samning við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmál við HÍ um að veita einum meistaranema í opinberri stjórnsýslu styrk til að skrifa meistararitgerð sem tekur mið af málefnum sem tengjast könnuninni Stofnun ársins. Styrkupphæðin var kr. 750.000.-
Í upphafi Góu, þann 17. febrúar lést kær samstarfsmaður okkar, Halldór Snorri Gunnarsson. Dóri var mikill og góður félagi okkar þar sem hann starfaði sem sérfræðingur á kjarasviði, fyrst hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og síðar Sameyki eftir sameiningu við SFR. Við kvöddum Dóra okkar með þessum lokaorðum: „Við sem unnum með Dóra verðum alltaf þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með honum og allt það góða sem hann gaf vinnustaðnum með vinnuframlagi sínu og glaðværð. Það er óhætt að fullyrða að það þótti öllum vænt um Dóra. Við vottum börnum hans og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.“
Í lok febrúar kom COVID-19 farsóttin og barst Sameyki tilkynning frá Landlækni sem benti á að stéttarfélagið hefði ákveðna upplýsingaskyldu gagnvart félagsmönnum sínum um ábyrgð, réttindi og skyldur í heimsfaraldri þegar um er að ræða óvissustig, hættustig eða neyðarstig. Sameyki miðlaði öllum þeim upplýsingum sem bárust frá Landlækni til sinna félagsmanna og fór þegar í stað eftir tillögum sóttvarnarlæknis og hefur haldið þeim allar götur síðan.
Í byrjun marsmánaðar var mælirinn orðinn fullur í kjaraviðræðunum. Boðað var til verkfalls þann 9. mars. Kjarasamningar opinberra starfsmanna höfðu verið lausir í 11 mánuði. Ekkert gekk í samtalinu um jöfnun launa milli markaða sem var hluti af samkomulaginu um jöfnun lífeyrisréttinda og hafði verið undirritað fjórum árum áður. Viðsemjendur héldu áfram sömu orðræðu og áður á samningafundum og því var boðað til verkfalls.
Sá ánægjulegi árangur náðist 4. mars að skrifað var undir samninga um styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk. Í frétt frá Sameyki sagði: „Samkomulag náðist í gærkvöldi í kjarasamningsviðræðum BSRB við viðsemjendur um útfærslu á styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu. Þetta er stór áfangi í átt að því að ljúka gerð kjarasamnings, en áður hafði samkomulag náðst um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu.“
Eftir u.þ.b. fimm klukkustunda verkfall sem hófst þann 9. mars náðist samkomulag við okkar stærstu viðsemjendur, ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélög. Samningar voru undirritaðir og verkföll stöðvuð. Í kjölfarið voru samningarnir kynntir félagsmönnum á Zoom fundum og þeir samþykktir með góðri þátttöku og miklum meirihluta.
Pestin setti strik í reikninginn þegar líða fór á vormánuði og var stór hluti starfsmanna Sameykis sendir heim að vinna, og eru þar reyndar enn að hluta til, því fjórir til fimm starfmenn mega vera á skrifstofum Sameykis á sama tíma.
Áfram var haldið að hitta viðsemjendur okkar með spritt og grímur í farteskinu og fjarlægðarmörk virt. Ákaflega sérstakir tímar vægast sagt. Félagsfólk okkar, starfsfólkið sem sinnir umönnun veikra, aldraðra og fatlaðra á þessum tímum, ásamt fólkinu sem starfar í skólum, leikskólum og frístundastarfi, að ógleymdu öllu því fólki sem sinnir almannaþjónustu um land allt. Það er fólkið sem allir landsmenn reiða sig á þegar COVID-19 vofir yfir landinu og Sameyki er ákaflega stolt með okkar fólk sem staðið hefur sig svo framúrskarandi vel.
Hinn alþjóðlegi baráttudagur verkafólks rann upp með yfirskriftinni „Baráttan fyrir betra þjóðfélagi“. Í 1. maí ávarpi undirritaðs til félagsmanna var mér tíðrætt um samstöðu og hlutverk Sameykis sem er uppreisn gegn ranglæti, og kröfur um breytingar til heilla fyrir vinnandi fólk. Einnig afleiðingar COVID-19 fyrir heimilin í landinu og það mikla atvinnuleysi sem blasir við og úrlausn þess í framhaldi. Einnig brýndi ég fyrir stjórnvöldum að slaka ekki á og aðstoða fólk svo það missi ekki heimili sín og komast þannig hjá eignatilfærslum líkt og urðu í fjármálahruninu. Þá fjallaði ég um styttingu vinnuvikunnar og þau verkefni sem tengjast innleiðingu hennar.
Mikil hátíðardagskrá var skipulögð á RÚV og samfélagsmiðlar notaðir til að koma boðskap baráttunnar á framfæri til allra landsmanna.
Svo slaknaði á einangruninni þegar sól hækkaði á lofti og sumarið heilsaði. Tillögur sóttvarnarlæknis um að aflétta einangrun landans var fagnað. Nú mátti fólk hittast á ný, þó í tveggja metra fjarlægð. Fólk ferðaðist innanlands og naut aftur lífsins með fjölskyldum sínum og vinum. Skrifstofur Sameykis voru opnaðar fyrir gestum og gangandi á ný. Starfsfólk mætti til vinnu að heiman aftur. En Sameyki svaf ekki á verðinum.
Sameyki mótmælti með BSRB þeirri misnotkun á almannafé sem ríkið veitti fyrirtækjum sem réru lífróður. Nokkuð bar á því að fyrirtæki misnotuðu þessa aðstoð og nýttu sér fé úr ríkissjóði án þess að þurfa á því að halda. Í ályktun sem send var út stóð; „Úrræðunum er ætlað að bjarga fyrirtækjum sem róa lífróður vegna faraldursins. Þeim er ekki ætlað að koma fyrirtækjum sem lenda ekki í teljandi tekjutapi vegna hans betur út úr tímabundinni niðursveiflu. Fyrirtæki sem hafa efni á að greiða eigendum arð eða kaupa eigin bréf eru augljóslega ekki í þeirri stöðu að þurfa á þessari aðstoð að halda.“
Sumarið leið og samningar við ýmsa viðsemjendur voru undirritaðir. Þeir voru kynntir í framhaldinu og greitt um þá atkvæði. Vinnan við styttingu vinnuvikunnar var í fullum gangi. Settar voru á laggirnar vefsíður sem útskýrðu fyrirkomulagið, styttri.is og betrivinnutimi.is. Haldið var upp á baráttu- og hátíðardag kvenna og því fagnað að 19. júní fengu konur fyrst kosningaréttu og kjörgengi.
Þá var hafist handa við að halda námstofur fyrir trúnaðarmenn til að undirbúa þá vegna innleiðingu á styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu. Reiknað var með að framkvæmd styttingarinnar myndi hefjast úti á vinnustöðunum fyrir 1. október og henni lokið 1. janúar 2021.
Að hausti gekk í garð erfiður tími því faraldurinn herti takið á þjóðinni. Félagar Sameykis stóðu vaktina í heilbrigðiskerfinu en nú fór í hönd hertar sóttvarnarreglur vegna COVID-19.
Fram eftir hausti voru kjarasamningar undirritaðir og samþykktir í kjölfarið og áfram hélt vinnan við styttingu vinnuvikunnar. Ýmsar stofnanir ríkis og sveitarfélaga túlkuðu á annan veg um hvað styttingin snýst. Töldu þau ýmist að starfsmenn vinnustaðanna þyrftu að semja um styttinguna, eða að fella út neysluhlé, jafnvel að skerða laun á móti styttingu. Mikil vinna hefur farið í að vinda ofan af þessari endaleysu allri fram eftir hausti til þessa dags.
Stofnun ársins og málþing Sameykis fór fram í október með óvenjulegum hætti í gegnum fjarfundarbúnað og í kjölfarið afhendingu verðlaunanna ýmist á bílastæðum, í stigagöngum, úti á túni eða í anddyri stofnananna. Það var ánægjulegt að geta fært verðlaunahöfum viðurkenningarnar með fjarlægðartakmörkunum, spritti og með grímur fyrir vitum. Allt eins og það á að vera. Einkennilegt er að ríkisstjórnin ætlar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð en hún var ein af þeim stofnunum sem fékk viðurkenningu sem Stofnun ársins 2020.
Árinu lauk með námskeiðahaldi og fræðslu á lokaspretti vegna styttingu vinnuvikunnar. Margt hefur áunnist á þessu ári og mörgu sleppt í þessari yfirferð. Eitt að því mikilvægasta er stytting vinnuvikunnar sem mun færa þjóðinni velsæld og hagsæld. Sú gleðifrétt barst utan úr heimi að bóluefni sé nú komið í gagnið og hafið er að bólusetja framlínufólk í heilbrigðiskerfinu – okkar fólk sem mest hefur mætt á í faraldrinum.
Við hjá Sameyki óskum þér og þínum gleðilegs nýs árs og megi nýja árið vera okkur öllum gott og farsælt. Óhætt er að segja það án þess að blikna – betra en það sem nú er að líða undir lok.
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.