Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. janúar 2021

Baráttan fyrir betri kjörum

Árni Stefán Jónsson og Garðar Hilmarsson

Á nýju ári lítum við fram á veginn. Hvað blasir við, og hverju höfum við áorkað saman? Framundan er nýr veruleiki hjá félagsmönnum Sameykis, stytting vinnuvikunnar sem tók gildi 1. janúar sl. Það er vitaskuld gleðilegt að sjá hve margar stofnanir ríkisins og Reykjavíkurborgar hafa staðið sig vel í að fylgja eftir og leiða styttinguna á sínum vinnustöðum í 36 klukkustundir fyrir dagvinnufólk. Tekist hefur víðast hvar að fyrirbyggja þann misskilning að launafólk eigi að greiða fyrir styttingu vinnuvikunnar úr eigin vasa með skertum neysluhléum eða með lægri upphæð í launaumslaginu.

Sameyki fylgdi eftir þrýstingi um innleiðingu styttingu vinnuvikunnar á vinnustöðunum og stuðlaði að vitundarvakningu með herferð sem hrundið var af stað á meðal félaga Sameykis og stjórnenda stofnana ríkis og sveitarfélaga. Birtust greinar í fjölmiðlum um málið, á fréttavefjum, í útvarpi, auk þess sem Sameyki efndi til leiks sem fræddi félagsmenn í stuttu máli um hvað stytting vinnuvikunnar snérist í aðalatriðum. Fundum við að dropinn holaði steininn og nú um áramótin höfum við áorkað því saman að stofnanirnar og Reykjavíkurborg hafa skilað inn ferli um styttingu vinnuvikunnar með sóma. Þó eru enn nokkrar stofnanir sem draga lappirnar.

Framundan blasir við að aðstoða þarf sveitarfélögin við að klára innleiðinguna á styttingu vinnuvikunnar og virða gerðan kjarasamning. Mörg þeirra sitja á fleti sínu og neita að rísa á fætur og ganga til verka með Sameyki við að innleiða styttinguna fyrir sitt og okkar fólk.

Nú bíður okkar vinnan við styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki. Fókusinn verður settur á það og þar koma margir að. Það verkefni er flóknara en hjá dagvinnufólki vegna vaktafyrirkomulags og annarra þátta. Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki tekur gildi á alþjóðlegum baráttudegi launafólks 1. maí.

Sameyki er öflugt stéttarfélag með um tólf þúsund félagsmenn. Þeir hafa sterka rödd meðal vinnandi stétta í þessu samfélagi en það er alltaf á brattann að sækja í baráttunni fyrir betri kjörum. Sameyki mun án alls efa verða áfram þessi sterka rödd fyrir sína félagsmenn á vettvangi kjaramála og baráttu fyrir betri kjörum.

Þá blasir við að ný stjórn Sameykis, nýr formaður og varaformaður taka við eftir aðalfund stéttarfélagsins þann 25. mars næstkomandi. Af því tilefni viljum við þakka öllum félögum Sameykis, samstarfsmönnum okkar og öðru samverkafólki fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf og góð kynni í gegnum árin.


Með þökkum og baráttukveðjum,
Árni Stefán Jónsson, formaður
Garðar Hilmarsson, varaformaður