1. febrúar 2021
Stytting vinnuvikunnar er framfaraskref
Frá alþjóðlegum baráttudegi launafólks 1. maí.
Þórarinn Eyfjörð
1. maí var valinn alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins vegna atvika sem áttu sér stað í byrjun maímánaðar 1886. Þá söfnuðust verkamenn saman á Haymarket torgi í Chicago í Bandaríkjunum til að fylgja eftir kröfu sinni um styttingu vinnudagsins. Boðað hafði verið til samstöðufundar með verkamönnum sem kröfðust manneskjulegra vinnuumhverfis og 8 klukkustunda vinnudags. Fundurinn endaði því miður með ósköpum þar sem sprengju var kastað inn í mannfjöldann með skelfilegum afleiðingum.
Það er langur vegur frá þessum sögulega atburði til kjarasamninga á opinberum vinnumarkaði á Íslandi sem samþykktir voru vorið 2020. Einstök stéttarfélög innan BSRB og bandalagið sjálft höfðu um langt árabil haldið því mjög á lofti að tímabært væri að endurskoða vinnutíma opinberra starfsmanna. Framfarir og tækni hefðu fyrir löngu fært okkur tækifæri til að endurskipuleggja vinnulag, verkefni og vinnutíma. Á þingi BSRB 2015 var ísinn brotinn og tilraunaverkefni um 36 stunda vinnuviku gangsett í samstarfi við atvinnurekendur og skiluðu verkefnin góðum árangri. Við undirritun kjarasamningana 2020 var stytting vinnuvikunnar í 36 stundir staðfest og opinberar stofnanir hafa síðan haft tíma til að undirbúa breytingarnar.
Í styttingu vinnuvikunnar er unnið eftir tveimur megin rásum; styttingu hjá dagvinnufólki annars vegar og stytting í vaktavinnu hins vegar. Í báðum tilfellum er um töluverða áskorun að ræða. Stytting vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki var tímasett þann 1. janúar síðastliðinn og útfærsla breytinganna er unnin í samvinnu stjórnanda og starfsmanna á hverri stofnun. Þannig verður hver vinnustaður að hanna sína útfærslu eftir þeim forsendum sem kjarasamningar gefa. Í þeirri framkvæmd eru nokkur leiðarljós; markvisst umbótastarf í öllum verkþáttum, sömu eða meiri gæði þjónustu, sami launakostnaður atvinnurekenda og óskert laun starfsmanna. Hér skiptir endurskipulagning verkefna og umbótastarf miklu máli. Breytingar á vinnulagi og umbætur í daglegu starfi eiga að skila árangursríkari heildarvirkni á vinnustað og starfsmenn eiga að komast fyrr heim úr vinnu. Þær stofnanir sem ekki náðu að innleiða breytingar þann 1. janúar síðastliðinn, eiga núna að vinna að því að ljúka innleiðingu eins fljótt og verða má.
Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki á að taka gildi 1. maí næstkomandi og er það mikil áskorun. Það hefur lengi verið vitað að vaktavinna dregur úr lífsgæðum þeirra sem vinna í því fyrirkomulagi. Vaktavinna dregur úr lífsgæðum, hefur áhrif á heilsufar og félagslega þætti, svo sem að taka þátt í tómstundum og félagslífi með fjölskyldu og vinum. Það er einnig þekkt að skipulag vakta hefur mjög mikil áhrif. Í kjarasamningum Sameykis og annarra stéttarfélaga innan BSRB vorið 2020 varð því samkomulag um að samningsaðilar myndu hanna og stýra innleiðingu á nýrri uppbyggingu vaktakerfis, sem væri samhæft og tæki gildi 1. maí næstkomandi. Það er því sama grunnkerfið sem verður innleitt á allar vaktavinnustofnanir þó útfærslan verði aðlöguð að þjónustu og verkefnum hvers vinnustaðar. Leiðarljósin í innleiðingu nýja kerfisins eru heilsa, öryggi og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Markmiðið er vernda heilsu starfsmanna, vinna að öryggi þjónustuþega og starfsmanna, og auðvelda starfsmönnum virka þátttöku í samfélaginu og í lífi fjölskyldunnar.
Í styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki og vaktavinnufólki eru ákveðnir grunnþættir sem við öll sem störfum á opinberum vinnumarkaði verðum að hafa í huga. Stytting vinnuvikunnar er gríðarlegt framfaraspor og árangurinn veltur á að við leggjumst öll saman á árarnar og stefnum saman í eina átt. Að því markmiði að bæta vinnuumhverfi okkar, tryggja góða þjónustu og bæta lífsgæði. Til að komast þá leið þarf virka þátttöku okkar allra í umbótaverkefnum á vinnustaðnum, traust milli starfsmanna og stjórnenda, og sívirkt mat okkar á því hvað gengur vel og hvað þarf að bæta. Tökum höndum saman og sýnum þann 1. maí næstkomandi að baráttan skilar árangri.
Höfundur er framkvæmdastjóri Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.