9. febrúar 2021
Lausnin á atvinnuleysinu
Ólafur Margeirsson PhD, doktor í hagfræði við Háskólann í Exeter.
Um 21.000 manns voru atvinnulaus í lok desember og atvinnuleysi tæp 11%. Atvinnuleysi fylgir sálfræðilegur, samfélagslegur og heilbrigðislegur kostnaður í formi þátta á borð við verra geðheilbrigði, aukna glæpatíðni, hærri aðhlynningarkostnað á geðdeildum og hærri löggæslukostnað. Þá eru fjárhagslegu afleiðingarnar alvarlegar, sérstaklega fyrir einstaklinga. Til að draga úr þessum vandamálum hafa Íslendingar notast við atvinnuleysisbætur. En umræðan þróast í átt að tveimur öðrum lausnum: borgaralaunum (e. universal basic income) og atvinnuframboðstryggingu (e. job guarantee).
Hvað eru borgaralaun og atvinnuframboðstrygging?
Borgaralaun eru skilyrðislaus greiðsla frá ríkissjóði til einstaklinga í samfélaginu, óháð þáttum á borð við aðrar tekjur eða eignir. Atvinnuframboðstrygging er trygging á framboði af störfum, endurmenntunarnámskeiðum og samfélags- og umhverfisverkefnum þar sem þátttakendur fá borgað laun sem duga til lífsviðurværis fyrir að vinna viðkomandi störf, sitja viðkomandi endurmenntunarnámskeið eða starfa við viðkomandi samfélags- og umhverfisverkefni. Ríkissjóður fjármagnar atvinnuframboðstryggingu.
Hverjar eru afleiðingar borgaralauna og atvinnuframboðstryggingar?
Bæði kerfin hafa sína kosti og galla. Kostir borgaralauna eru m.a. einfaldleiki í umsjón: ríkissjóður þarf kennitölu og bankareikning viðtakanda borgaralauna. Þá minnka borgaralaun þörfina á velferðarkerfi svo hægt er að minnka útgjöld ríkissjóðs vegna t.d. atvinnuleysisbóta, örorkubóta eða fæðingarorlofs. Borgaralaun geta líka ýtt undir nýsköpun þar sem frumkvöðlar geta minnkað starfhlutfall sitt að eigin frumkvæði til að fá aukinn tíma til þess að vinna við eigin nýsköpunarverkefni.
Gallar borgaralauna eru m.a. mikill brúttó kostnaður. Sé miðað við að borgaralaun væru greidd frá 18 ára aldri væru það 368þ. manns (þar af 317þ. íslenskir ríkisborgara). Brúttó kostnaðurinn væri einfalt margfeldi af þeirri tölu, t.d. 442 milljarðar króna á ári væru borgaralaun 100þ.kr. á mánuði. Ríkissjóður, sem útgefandi á gjaldmiðli Íslands (e. issuer of currency) en ekki notandi gjaldmiðilsins (e. user of currency) líkt og heimili og fyrirtæki, hefði efni á slíku – sjá grein mína „Ríkissjóður hefur efni á þessu – en á að gera það?“ síðan í júní 2020 á vef SÍBS – og þörfin á greiðslum vegna t.d. atvinnuleysis eða örorku myndi minnka. En nánast ómögulegt er að sjá fyrir sér að almenn borgaralaun myndu ekki leiða til verðbólgu án stóraukinnar skattheimtu, sérstaklega sé ætlunin að hafa þau nægilega há til að þau dugi til lífsviðurværis: framfærsluviðmið fyrir barnlausan einstakling án bíls á höfuðborgarsvæðinu er rúmlega 300þ.kr./mán fyrir skatt.
Annar stór galli á borgaralaunum er skorturinn á sértækni: allir fá greitt borgaralaun, hvort sem þeir eru með engar aðrar tekjur eða 10 milljónir á mánuði.
Atvinnuframboðstrygging hefur þessa sértækni: eingöngu þeir aðilar sem eru innan kerfisins fá greitt, enda eru það einstaklingarnir sem þurfa á greiðslunum að halda. Vandamálið sem atvinnuleysi er er leyst með riffilskoti í stað sprengju.
Allir sem vilja geta fengið starf innan atvinnuframboðstryggingar, óháð t.d. kyni eða ríkisborgararétti. Það starf borgar lágmarkslaun sem duga til lífsviðurværis (um 350þ.kr. á mánuði). Vilji viðkomandi sitja endurmenntunarnámskeið er honum frjálst að gera það og fá greitt sömu upphæð fyrir. Hugsunin að baki slíkum möguleika er að auka tækifæri einstaklinga til þess að færa sig á milli starfa innan mismunandi atvinnugeira, allt eftir því hvernig framboð og eftirspurn eftir vinnuafli innan atvinnugeira þróast. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í því að undirbúa fólk undir fjórðu iðnbyltinguna sem mun minnka eftirspurn eftir vinnuafli í einum geira (t.d. verslun) en auka hana í öðrum (t.d. upplýsingatækni). Þessi þróun kallar á stóreflda endurmenntun á vinnuafli. Aukin endurmenntun (t.d. tungumálakennsla, verkefnaumsjón, upplýsingatækni, rekstur fyrirtækja, o.s.frv.) myndi einnig auka nýsköpun innan hagkerfisins, líkt og gæti átt sér stað innan borgaralauna.
Brúttó kostnaðurinn við atvinnuframboðstryggingu er líka langtum lægri en í tilfelli borgaralauna. Væru allir atvinnulausir einstaklingar á Íslandi í dag með starf innan atvinnuframboðstryggingar (um 350þ.kr. á mánuði) myndi það kosta ríflega 7 milljarða á mánuði eða um 88 milljarðar á ári sé engin breyting á atvinnuleysi yfir árið. Finni fólk aðra vinnu, t.d. í einkageiranum þökk sé endurmenntun sem átti sér stað innan atvinnuframboðstryggingarinnar, minnka útgjöld vegna atvinnuframboðstryggingar – enda ekki þörf á þeim lengur þar sem viðkomandi fann nýtt starf við hæfi. Til samanburðar er áætlað að útgreiddar atvinnuleysisbætur árið 2020 hafi verið í kringum 80 milljarðar króna. Nettó kostnaðurinn við atvinnuframboðstryggingu væri því mjög takmarkaður m.v. núverandi kerfi þar sem fólk innan atvinnuframboðstryggingar fengi laun innan hennar í stað atvinnuleysisbóta. Verðbólguáhrif atvinnuframboðstryggingar eru þannig hverfandi og auðvelt er að sjá fyrir sér að engar eða lágmarks skattahækkanir væru nauðsynlegar, ólíkt tilfelli almennra borgaralauna, sé atvinnuframboðstrygging tekin upp.
Atvinnuframboðstrygging býður líka upp á ýmis konar samfélags- og umhverfisverkefni. Aðstoðarstörf við íþróttaiðkun jafnt barna sem fullorðinna, rekstur leikhúsa og samfélagsmiðstöðva, og viðhald almennra opinberra svæða á borð við leikvelli, íþróttasvæði og umferðarmannvirki geta öll verið hluti af samfélagsverkefnum innan atvinnuframboðstryggingar. Nýskógrækt, viðhald náttúruperlna, og hreinsun almenningsgarða og fjara eru störf sem væru hluti af umhverfisverkefnum innan atvinnuframboðstryggingar.
Atvinnuframboðstrygging hefur þann galla að hún er flóknari í umsjón en borgaralaun. Þó er auðveldlega hægt að nota núverandi innviði sem Vinnumálastofnun hefur byggt upp til að halda utan um þætti á borð við störf í boði.
Þá er auðvelt að hafa bæði borgaralaun og atvinnuframboðstryggingu til staðar á sama tíma, kerfin útiloka ekki hvort annað. Til dæmis er ljóst að sumir geta einfaldlega ekki unnið vegna ýmissa ástæðna. Slíkt fólk getur ekki tekið þátt í atvinnuframboðstryggingu en borgaralaun gætu hjálpað þessum einstaklingum. Það myndi þó þýða að borgaralaun væru ekki almenn heldur sértæk, ætluð þeim sem þurfa á þeim að halda.
Bæði best!
Ljóst er að bæði borgaralaun og atvinnuframboðstrygging hafa sína kosti og galla. Mikilvægt er að hafa í huga að kerfin útiloka ekki hvort annað og líklega væri blanda af báðum besta lausnin til þess að kerfin geti unnið gegn göllum hvors annars. Umræða um þessi kerfi er mjög svo af hinu góða því hvort sem okkur líkar það betur eða verr verðum við að leysa vandann sem atvinnuleysi er, bæði í dag sem og í framtíðinni.