16. febrúar 2021
Ítarleg skýrsla um lífeyrismál komin út
Í skýrslunni kemur fram að ávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna var góð miðað við önnur OECD-ríki
Sameyki vill vekja athygli félagsmanna sinna á að komin er út ný og ítarleg skýrsla eftir Stefán Andra Stefánsson og Stefán Ólafsson prófessor um árangur íslenska lífeyrissjóðakerfisins og birt er á vef rannsóknarinnar, sjá hér. Skýrslan er afrakstur rannsóknarverkefnis um velferðar- og lífeyrismál. Þar ber margt á góma eins og samanburður á stærð íslenskra lífeyrissjóða við OECD-ríkin einnig að Ísland er með þriðja stærsta lífeyrissjóðakerfið, 173% af vergri landsframleiðslu.
Í skýrslunni kemur fram að ávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna var góð miðað við önnur OECD-ríki árið 2018 eða 1,81%. Segir í skýrslunni að árið 2019 hafi ekki verið síðra en 2018 hjá íslensku lífeyrissjóðunum, bæði í sögulegu samhengi innanlands og ef miðað er við önnur OECD-ríki. Ávöxtun ársins var ein sú besta á tímabilinu 1997 til 2019 og jafnframt sú sjötta besta meðal OECD-ríkja.
Þá er farið yfir ávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna frá árinu 1997 til ársins 2018 og einnig í samhengi við hagvöxt og þróun á fjármálamörkuðum.
Útgefendur skýrslunnar eru Edda – rannsóknarsetur við Háskóla Íslands og Efling – stéttarfélag.