Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

22. febrúar 2021

Kynbundinn launamunur verður til við skrifborð stjórnenda

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri Sameykis. Ljósmynd/Skjámynd RÚV

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri hjá Sameyki ræddi við Þórunni Elísabetu Bogadóttur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun um kynbundinn launamun sem hann fjallaði um í meistararitgerð sinni í opinberri stjórnsýslu.

Þórarinn sagði að hjá Sameyki væri launamunur kynjanna þeim hugleikinn. Það væri þó alltaf mikil vonbrigði að sjá að kynbundinn launamunur virðist ekki vera að breytast. Svo virtist sem kynbundinn launamunur væri menningar- og stjórnunarlega inngróið fyrirbæri. „Kynbundinn launamunurinn virðist vera bundinn inn í okkar launakerfi og viðhorf til karla og viðhorf til kvenna,“ sagði Þórarinn.

Þórarinn ræddi um ferlið frá 1961 og lagasetningar á alþingi til að jafna laun kynjanna. Hann segir að það sé beitt aðferðafræði við að halda launum kvenna niðri þrátt fyrir lagasetningar, framkvæmdaáætlanir og vitneskju um þennan ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði. Árangurinn í jöfnun launa kvenna og karla sé langt í frá ásættanlegur á þeim áratugum sem liðnir eru.

Það sem gerir okkur erfitt fyrir í þessari umræðu er að það eru til nokkrar skilgreiningar á launamun kynjanna. Það sé flækjustig. Hann segir að það sé erfitt þegar verið er að setja fram einhverjar fullyrðingar og kenningar að menn fela sig á bak við þær með segja að segja aðra ranga en hina ekki þegar tekið sé tillit til ákveðinna þátta innan þeirra. Þetta gerir umræðuna erfiðari því verið sé að ræða kynbundinn launamun út frá ólíku sjónarhorni. „Þá fara menn í deilur um keisarans skegg, bara nákvæmlega það,“ sagði Þórarinn.

„Það er mín skoðun, ef við gætum einbeitt okkur að því að halda orðræðunni á óútskýrðum launamun, þá myndu okkur ganga betur að finna aðferðina hvernig ætlum við að fara inn í að leiðrétta þetta. Það er samfélagslegt átak til að leiðrétta þetta sem þarf að eiga sér stað. Og ekki bara samfélagslegt heldur þurfum við stýringarátak í að leiðrétta þetta, að við stjórnum þessu, að við sem samfélag stýrum þessu þannig að þetta lagist. Við breytum þessu ekki á meðan við erum að deila um aðferðafræðina,“ sagði hann.

 

Þrátt fyrir allt hækka karlarnir en konurnar ekki
Spurður hvort það nýjasta, jafnlaunavottunin dugi ekki til svarar Þórarinn. „Jú, fyrirtækin á markaði var gefið svigrúm hvenær þau ættu að vera búin að klára jafnlaunavottunina hjá sér. Þessu var öðruvísi farið hjá ríkinu. Þar var gert að skilyrði að ríkið væri búið að innleiða jafnlaunavottunina 31. desember 2019 en á meðan fyrirtækin hefðu tíma, allt eftir fjölda starfsmann, til 31. desember 2022. Ef ég hef skilið forsætisráðherra rétt þá verður stór könnun nú í vor á jafnlaunavottuninni og það mjög athyglisvert að sjá hvað gerist þá. Samkvæmt mælikvörðum þá gefa fyrstu vísbendingar úr jafnlaunakönnunum Sameykis til kynna að jafnlaunavottunin sé að virka.

Svo er annað sem mér þykir vera mjög athyglisvert og ég skoðaði í gegnum hjá Sameyki hvernig við ætlum að gera þetta. Ef ég set þá fram heildarmynd eða heildaraðgerð á framkvæmdinni þá er það alveg klárt mál að við erum með mjög sterka menningarlega krafta sem stýrir okkur á vinnumarkaði í þessa átt.

Kannski er niðurstaða mín í þessari rannsókn sú, þrátt fyrir allar þessar lagasetningar, allt þetta kerfi sem búið er að búa til að við ætlum að laga þetta er einn faktor sem aldrei hefur verið snertur almennilega. Það eru stjórnvöld. Þau hafa ákveðið að ganga ekki alla leið og setja viðurlög við lögbrotum. Launamunur kynjanna verður til við skrifborð stjórnenda. Hann verður til þegar starfsmaður og stjórnandi ákveða einstaklingsbundin laun. Fara yfir launamálin yfir skrifborðið. Þar hækka karlarnir en konurnar ekki, eða ekki eins mikið. Þetta er á ábyrgð stjórnenda að sjá til þess að lögin séu framkvæmd, að það megi ekki vera kynbundinn launamunur. Lögin eiga auðvitað að ná líka yfir almenna markaðinn. Þarna þarf að stíga miklu, miklu fastar til jarðar. Við verðum að setja upp kerfi sem gerir það beinlínis að refsiverðu athæfi að sjá ekki til þess að kynbundinn launamunur sé ekki til staðar,“ sagði Þórarinn.

 

Rangt virðismat stórt mein
Spurður hvort þetta gerist ekki að sjálfu sér að kynbundinn launamunur hverfi með lagasetningu segir Þórarinn að við séum búin að berja höfðinu við steininn í 60-70 ár með allar þessar tilraunir, sérfræðinga, greiningar, rannsakendum, vel meinandi fólki, stjórnmálamönnum o.fl. Niðurstaðan sé sú sama. „Við viljum koma þessu í framkvæmd. Talandi um innleiðinguna sem ég ræddi í upphafi. Það þarf að tryggja hvernig innleiðingunni er náð hjá stjórnendum. Hvernig brautin liggur frá ákvörðun til framkvæmdar. Kynbundinn launamunir á sér stað við skrifborð stjórnenda og það þarf að láta þá fá verkfærin til að útrýma launamuninum. Þá komum við að stóra vandamálinu. „Stóra vandamálið í kynbundnum launamun er milli stórra kvennastétta og karlastétta. Við erum með kynskiptan vinnumarkað. Það er það sem er að gera okkur erfitt fyrir. Við erum með þessar stóru stéttir eins og stóru skrifstofuhópana, félagsliða, félagsþjónustuna, fræðslukerfið okkar allt saman. Þetta eru stórar kvennastéttir. Þær eru markvisst lægra launaðar. Þetta er viðhorf, þetta er virðismat á störfum kvenna sem er ákafleg stórt mein og við eigum að fara inn í þennan heim með þau verkfæri sem duga. Það þýðir annað viðhorf, meira fjármagn og öðruvísi nálgun á verkefnið,“ sagði Þórarinn Eyfjörð að lokum.

Fréttin birtist fyrst á RÚV, sjá hér.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Þórarinn Eyfjörð hér í spilaranum.