Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

25. febrúar 2021

Mikil og flókin vinna við styttinguna

Árni Stefán Jónsson formaður Sameykis.

Í frétt í Morgunblaðinu í dag segir Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis, að mikil og flókin vinna eigi sér stað þessa dagana við að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki sem starfar hjá hinu opinbera. Stytting vinnuviku dagvinnufólks úr 40 klukkustundum í 36 tók gildi um seinustu áramót en stytting vinnutímans hjá starfsmönnum sem vinna vaktavinnu á að taka gildi 1. maí næstkomandi.

Er það mun flóknara verkefni að sögn talsmanna stéttarfélaganna en mikill fjöldi félagsmanna innan aðildarfélaga BSRB vinnur vaktavinnu, m.a. fjöldi starfsmanna innan heilbrigðisgeirans og í stofnunum velferðarþjónustunnar auk heilu starfsstéttanna, s.s. lögreglumanna, fangavarða og starfsmanna tollsins.

„Þetta er heljarmikið mál af því að það munu eiga sér stað verulegar breytingar á kerfinu og er verið að vinna að því alveg á fullu. Þetta snýst ekki eingöngu um að breyta öllum vaktaplönum því það þarf líka að breyta nánast öllum forritum sem halda utan um launamál o.fl.,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis. Margt sé ógert en allir af vilja gerðir. Þessi breyting sé mun flóknari en vinnutímastyttingin sem tók gildi 1. janúar. Svo hafi menn líka gert ráð fyrir því að þessari breytingu muni fylgja einhver kostnaður, sem ekki liggur nákvæmlega fyrir hver verður. ,,Menn voru að reyna að stytta vinnuvikuna hjá dagvinnufólki án kostnaðar, það var markmiðið en þetta er allt önnur vinna,“ segir hann.

 

Margir í hlutastörfum
Fjöldi starfsmanna, m.a. á heilbrigðisstofnunum, sem vinna vaktavinnu eru í hlutastörfum og stendur þeim til boða að hækka starfshlutfall sitt samhliða styttingu vinnuvikunnar. Með því geti það haldið svipuðum tímafjölda áfram en hækkað engu að síður laun sín. Árni Stefán segir að þeir sem eru ekki í 100% starfi muni þá skila áfram sömu vinnutímum og áður en við það eykst starfshlutfallið og laun þeirra hækka. Útséð hafi verið að ef allir tækju vinnutímastyttinguna yrði mönnunargatið of stórt til að hægt væri að ráða við það.

Í kynningu BSRB á útfærslu vinnutíma vaktavinnufólks á vefsíðunni betrivinnutimi.is kemur fram að helstu breytingarnar verða þær að vinnuvikan styttist og launamyndun vaktavinnufólks tekur mið af fleiri þáttum en áður. Vinnuvikan styttist að lágmarki í 36 virkar vinnustundir. Í nýju launamyndunarkerfi fjölgi vaktaálagsflokkum og greiddur verði sérstakur vaktahvati sem taki mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.Vaktaálagsflokkum fjölgar, vaktaálag á næturvöktum hækkar úr 55% í 65% álag virka daga og 75% um helgar.

 

Nokkrar eiga ólokið
Þrátt fyrir að margar stofnanir hafi lokið útfærslu á styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólki sem tók gildi 1. janúar eru enn nokkrar stofnanir sem ekki hafa lokið því að sögn Árna Stefáns. Reykjavíkurborg standi sig vel en það séu því miður nokkrar stofnanir hjá ríkinu sem eru ekki búnar og þurfi að ýta betur á.

Fréttina skrifaði Ómar Friðriksson og birtist í Morgunblaðinu í dag, sjá hér.