18. mars 2021
Spilling er ógn við mannréttindi
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi. Ljósmynd/RÚV
Árni Múli Jónasson, lögfræðingur með mannréttindi sem sérsvið, og framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi hélt erindi á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis í dag um spillingu og afleiðingar hennar á samfélagið. Árni Múli sagði að spilling er ógn við mannréttindi, lýðræði og lífskjör. Hann fór yfir hvað er spilling, hvernig hún verður til og hvernig hún birtist. „Spilling er mesta hindrunin í framþróun í vanþróuðum löndum af öllum hindrunum,“ sagði hann.
Spilling er m.a. misbeiting valds í þágu einkahagsmuna. Einhverjum er treyst sem á að huga að almannahagsmunum og bera þá fyrir brjósti en svíkur valdið sem viðkomandi er veitt og beitir því í eigin þágu. Spilling virðir engin landamæri og er mikil meinsemd hvarvetna í heiminum. Reglulega kemur upp spilling í íslensku samfélag og málin sem upp koma á Íslandi sanna að spilling þrífst hér svo ekki verður um villst.
Vitundarvakning um að hér þrífist spilling
Fyrir hrun ríkti í íslensku samfélagi almennt sú skoðun að spilling væri ekki mikil á Íslandi. Þetta viðhorf hefur breyst meðal þjóðarinnar undanfarin ár í kjölfar hrunsins og er viðurkennt almennt að á Íslandi í dag ríkir spilling eins og dæmin sanna. Ísland er í 17 sæti á lista Transparency International fyrir spilltustu ríkin og er Ísland spilltasta land Norðurlandanna á lista stofnunarinnar 2020.
Spilling þrífst í stjórnkerfinu og í pólitískum ráðningum. „Það er mannréttindabrot þegar ráðið er í störf eftir stjórnmálaskoðunum. Það er bannað, nema þegar ráðið er í störf aðstoðarmanna ráðherra og bæjarstjóra. Annað er spilling, segir Árni Múli.
Tengslaspilling og stórspilling ríkjandi
Smáspilling þekkist ekki hér á landi líkt og þekkist annarsstaðar í heiminum eins og að greiða laganna vörðum sektir framhjá stjórnvaldi. Stórspilling er annarskonar spilling þar sem æðstu valdhöfum er hyglað fyrir að greiða götu einkaaðila. Þetta er algengt í vanþróuðum löndum þar sem mútur eru þegnar og milljarðar greiddir spilltum stjórnmálamönnum og valdhöfum fyrir aðgang að auðlindum. Þetta er greitt beint til valdhafa en ekki til ríkis og viðkomandi þjóð nýtir svo í uppbyggingu og innviði. Þess vegna er ofnýting á náttúruauðlindum þjóða því menn greiða fram hjá yfirvöldum öðrum sem hefur völdin.
„Eins er tengslaspilling algeng og nokkuð þekkt hér á landi. Þetta er erfitt að uppræta þó oft sé hún nokkuð augljós, því sá sem spillir og hinn sem hylmir yfir, hafa gjarnan sameiginlega hagsmuni á að leyna spillingunni. Í spillingunni er erfitt að færa sönnunarbyrði á þann sem spillir vegna þessa þátta,“ sagði Árni Múli Jónasson.