Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

13. apríl 2021

Samfélagslegur ávinningur betri vinnutíma í vaktavinnu!

Ég á átta barnabörn og vil gjarnan gefa þeim meiri tíma,“ segir Ágústa Sigurðardóttir, bílstjóri hjá Strætó BS, um hvernig hún ætlar að nýta aukinn frítíma með styttingu vinnuvikunnar.

Þann 1. maí var stigið eitt stærsta skref í breytingum á vinnutíma vaktavinnufólks í hálfa öld. Vinnuvika starfsfólks í vaktavinnu, í fullu starfi hjá opinberum launagreiðendum, mun styttast um 4 klst. á viku að lágmarki. Þeir sem vinna þyngstu vaktirnar geta stytt vinnutíma sinn um allt að 8 klst. á viku. Með þessum breytingum er komið til móts við þá kröfu launafólks að 80% vaktavinna jafngildi 100% í dagvinnu vegna sjónarmiða um öryggi, heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs.

Meira öryggi, meiri gæði
Starfsumhverfi vaktavinnufólks á Íslandi hefur, að mestu leyti, verið óbreytt síðastliðin 50 ár. Á sumum vinnustöðum hafa vaktakerfi ekki breyst í áratugi þrátt fyrir að starfsemin hafi tekið miklum breytingum.
Hjá opinberum launagreiðendum eru störf í vaktavinnu gjarnan störf þar sem unnið er með fólki, mannlegu störfin. Störfin krefjast oftast einbeitingar og árvekni sem og fumlausra viðbragða og þar þarf að leggja mikla áherslu á að gæta fyllsta öryggis. Stærstu hópar vaktavinnufólks er að finna í heilbrigðis- og velferðarþjónustu, löggæslu og öryggisþjónustu og íþrótta- og tómstundastörfum.

Samfélagslegur ávinningur breytinganna er margþættur. Ávinningurinn skilar sér til starfsfólks og fjölskyldna þeirra, launagreiðenda og í auknum gæðum opinberrar þjónustu. Mestu um vert er sá samfélagslegi ávinningur sem felst í auknu öryggi, bættri heilsu og meira jafnvægi vinnu og einkalífs, en það eru einmitt leiðarljós verkefnisins um betri vinnutíma í vaktavinnu. Leiðarljósin eru byggð á rannsóknum sem gerðar hafa verið á vaktavinnufólki síðustu áratugi, bæði innan og utan Evrópu. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa sýnt að þeir sem vinna á óhefðbundnum vinnutíma standa frammi fyrir mörgum áskorunum sem starfsfólk sem vinnur reglubundna dagvinnu glímir ekki við. Helstu áskoranirnar byggja á skipulagi vakta, lengd þeirra, tegund, samsetningu sem og lengd og fjölda hvíldarhléa. Framangreindir þættir hafa umfram aðra áhrif á öryggi og heilsu starfsfólks.

Aukinn frítími
Samfélagslegur ávinningur af bættum vinnutíma er mikill fyrir starfsfólkið og fjölskyldur þeirra. Fyrst ber að nefna aukið öryggi og bætta heilsu. Vegna styttingar vinnuviku er starfsfólki og stjórnendum gert kleift að bæta skipulag vakta út frá öryggis- og heilsufarssjónarmiðum fyrir starfsfólk. Þar má nefna að lengd vakta séu alla jafna á bilinu 6-9 klst., að breytt sé á milli dag-, kvöld- og næturvakta í takt við líkamsklukkuna og starfsfólki tryggð 11 klst. hvíld milli vakta og 35 klst. samfellda hvíld á viku. Bætt skipulag og styttri vinnuvika mun auka frítíma starfsfólks sem leiðir af sér aukið jafnvægi vinnu og einkalífs. Aukinn frítími felst í að starfsfólk í fullu starfi í vaktavinnu fær nú að lágmarki 208 klst. í aukinn frítíma á ári. Frítími starfsfólks getur aukist í allt að 392 klst. miðað við hámarksstyttingu vinnutíma. Styttingin á ári jafngildir að lágmarki tæplega einum mánuði og einni viku á ári miðað við núverandi vinnuskil.

Samfélagslegur ávinningur
Betri starfsandi er einnig samfélagslegur ávinningur sem og aukinn fyrirsjáanleiki. Áhersla er lögð á jafnræði í starfsmannahópi við skipulagningu vinnutíma utan dagvinnumarka og að starfsfólk hafi sömu möguleika á fjölbreyttum vöktum og launamyndun miðað við hæfni. Enn fremur er ein forsenda betri vinnutíma í vaktavinnu sú að umbótasamtal á að fara fram á vinnustað. Með umbótasamtali gefst starfsfólki kostur á að koma með lausnir og hugmyndir að bættu starfsumhverfi. Vonir standa til að bætt starfsumhverfi leiði til bættrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu starfsfólks og minni veikinda. Með breyttum launamyndunarþáttum verður sömuleiðis hagstæðara fyrir starfsfólk að vera í hærra starfshlutfalli og vinna minni breytilega yfirvinnu. Í slíku felst aukinn fyrirsjáanleiki og festa.

Aukin hagkvæmni
Einnig er gert ráð fyrir víðtækari samfélagslegum ávinningi betri vinnutíma í vaktavinnu.
Auknu öryggi starfsfólks fylgir aukið öryggi fyrir þjónustuþega. Með bættu skipulagi vakta út frá öryggissjónarmiðum eykst öryggi þjónustuþega og mistökum fækkar. Starfsemi sem skipulögð er með þarfir þjónustunnar að leiðarljósi dregur einnig úr álagi á starfsfólk, m.a. með því að hafa nægan fjölda starfsfólks þegar álagið er mest. Styttri vinnutími starfsfólks í fullu starfi á að hafa í för með sér úthvíldara starfsfólk þar sem auðveldara er að skipuleggja vaktir með öryggi allra að leiðarljósi. Bætt heilsa starfsfólks dregur úr veikindum og hefur jákvæð áhrif á stöðugleika í mönnun.

Breytingar á launamyndunarþáttum eru þess eðlis að þeir hvetja starfsfólk til að vera í hærra starfshlutfalli þar sem áhersla er lögð á umbun fyrir vinnu innan skipulagðrar vaktskrár og dregið úr hvata til breytilegrar yfirvinnu frá því sem áður var. Þessar breytingar ýta undir aukna festu í mönnun og stöðugleika í þjónustu sem leiðir af sér að þeir sem þjónustu þiggja fá rétta þjónustu á réttum tíma. Einnig eru vinnutími og laun gerð gegnsærri og taka betur mið af vaktabyrði og verðmæti fyrir staðinn tíma. Aukin festa og stöðugleiki auk gegnsæi launa hefur í för með sér hagkvæmari u nýtingu fjármuna.

Kerfisbreyting sem leiðir til góðs
Betri vinnutími í vaktavinnu mun einnig hafa jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Konur eru um 80% vaktavinnustarfsfólks hjá opinberum launagreiðendum og eru mun líklegri en karlar til að vera í hlutastarfi. Breytingarnar eru til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall og auka þar með ævitekjur sínar. Með auknu öryggi starfsfólks og þjónustuþega, bættri heilsu starfsfólks, aukinni starfsánægju, starfsemi sem mönnuð er miðað við þjónustuþörf, aukinni festu og stöðugleika og hagkvæmari nýtingu fjármuna aukast gæði opinberrar þjónustu. Með nýjum og breyttum launamyndunarþáttum sem og allt að 32 klst. vinnuviku standa vonir til að vaktavinna verði eftirsóknarverðari og eftirspurn eftir þeim störfum aukist.

Kerfisbreytingin sem felst í innleiðingu betri vinnutíma í vaktavinnu er í senn tímamótabreyting og eitt stærsta breytingarverkefni sem launafólk og launagreiðendur hafa sameinast um að fara í til margra ára. Það er mikið tilhlökkunarefni að fylgjast með þeim samfélagslega ávinningi sem betri vinnutími í vaktavinnu kemur til með að hafa í för með sér þegar fram líða stundir, bæði fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra sem og á gæði opinberrar þjónustu.

Í verkefninu ,,Betri vinnutími í vaktavinnu“ felst einstakt tækifæri sem allir ættu að taka virkan þátt í að móta með öryggi, heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs og þar með aukin lífsgæði að leiðarljósi.


Bára Hildur Jóhannsdóttir verkefnastjóri Betri vinnutíma í vaktavinnu.