19. apríl 2021
Lítum með bjartsýni til framtíðar
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis
Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag launafólks þann 1. maí. Því miður þá er þetta í annað sinn vegna COVID-19 faraldursins sem við getum ekki sameinast í kröfugöngu á okkar baráttudegi en við skulum líta með bjartsýni til framtíðar. 1. maí mun renna upp aftur að ári liðnu og þá munum við ganga saman á ný í kröfugöngum launafólks.
Ég vil þakka traustið sem mér hefur verið sýnt til að sinna formennsku í okkar öfluga stéttarfélagi Sameyki. Ekki hefur farið fram hjá félagsfólki okkar að stytting vinnuvikunnar hefur verið mál málanna síðustu mánuði. Innleiðingin hjá dagvinnufólki tók gildi um síðustu áramót en styttingin hjá þeim sem vinna vaktavinnu tekur gildi 1. maí. Um er að ræða kerfisbreytingu á vaktaskipulagi og markmiðið er að bæta vaktafyrirkomulagið, fækka löngum og erfiðum vöktum og hafa öryggi, heilsu og jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs í fyrirrúmi. Kannanir sýna að heilsa fólks sem vinnur vaktavinnu batnar með styttri vinnuviku og styttingin getur farið niður í 32 klst. á viku án launaskerðingar. Það munar um það.
Sameyki ályktaði á aðalfundi sínum þann 25. mars sl. um ýmis mikilvæg mál sem varða launafólk í landinu og samfélag okkar allt. Sameyki krefst þess meðal annars að stjórnvöld verji fjölskyldur í landinu sem misst hafa atvinnu sökum COVID-19 faraldursins. Einnig var ályktað um auðlindir í þjóðareign og þess krafist að tryggt verði í stjórnarskrá að sameiginlegar auðlindir okkar séu ævarandi eign þjóðarinnar og samfélagið allt njóti arðsins af þeim. Að undanförnu hefur ljósi verið varpað á að spilling ríki á Íslandi langt umfram það sem við höfum áður haldið. Hana verðum við að uppræta með öllum ráðum og Sameyki ályktaði og krafðist þess að stjórnvöld skelli ekki skolleyrum við þeirri staðreynd lengur. Þá var ályktað um virðismat á störfum kvenna á vinnumarkaði. Það er flestum ljóst að mat á virði starfa kvenna er lægra en virðismat á störfum karla í sambærilegum stéttum. Þessi staða er algjörlega óviðundandi.
Ég vil að lokum óska nýrri stjórn Sameykis og öðru félagskjörnu forystufólki félagsins til hamingju með ný hlutverk og velfarnaðar í þeim verkefnum sem bíða okkar. Framundan eru krefjandi áskoranir. Nú þarf að koma styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki í höfn og okkar bíða áframhaldandi verkefni við að standa vörð um og vinna frekar að bættum kjörum og réttindum félagsfólks Sameykis .
Með baráttukveðju,
Þórarinn Eyfjörð.