20. apríl 2021
Rannsókn um stöðu launafólks á tímum COVID-19
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðunnar – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins
Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðunnar – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins kynnti fyrir fundargestum á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis í dag niðurstöður úr mjög áhugaverðri könnun sem stofnunin gerði um stöðu launafólks á tímum COVID-19. Góð þátttaka var á meðal félaga Sameykis í könnuninni en alls svöruðu þrettán hundruð félagar sem þykir gott í slíkri könnun. Þegar litið er til stöðu félagsfólks Sameykis meðað við aðra á vinnumarkaði kemur fram, að 95% félaga í Sameyki er í launaðri atvinnu, en 77% í öðrum félögum sem könnunin náði til. Þá kom m.a. fram að atvinnuleysi er mjög lítið á meðal félaga Sameykis og fæstir þeirra sem spurðir voru þurftu að sækja sér fjárhagsaðstoð.
Staða félagsfólks á húsnæðismarkaði er góð samkvæmt könnuninni, en 80% þess er í eigin húsnæði. Á meðal félaga í stéttarfélaginu eiga konur erfiðara með að ná endum saman en karlar. Rúm tuttugu prósent kvenna sem spurðar voru eiga erfitt með að mæta óvæntum útgjöldum en fimmtán prósent karla eiga erfitt með að mæta óvæntum útgjöldum. Rúmlega þrjátíu prósent kvenna og tuttugu og átta prósent karla í Sameyki neita sér um heilbrigðisþjónustu eins og að leita til tannlækna. Töluverður munur er á milli félaga Sameykis í þessari rannsókn miðað við félaga í öðrum stéttarfélögum innan sambanda BSRB og ASÍ.