28. apríl 2021
Stjórn Sameykis mótmælir harðlega einkavæðingu hjúkrunarheimila
Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja að aldraðir njóti öryggis og bestu mögulegrar umönnunar og hjúkrunar. Ljósmynd/Sigurður Ó. Sigurðsson
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu mótmælir harðlega hvernig ríkisstjórnin hefur fjársvelt hjúkrunarheimili fyrir aldraða með þeim hætti, að daggjöldin sem stjórnvöld skammta rekstrinum duga engan veginn til að standa straum af kostnaði sem hlýst af lögbundnu hlutverki þeirra. Með síðustu ákvörðunum stjórnvalda er tilgangurinn augljós, að koma rekstri hjúkrunarheimila úr umsjá ríkisins í hendur einkaaðila.
Eldri borgarar á Íslandi eiga rétt á þessari þjónustu samkvæmt íslenskum lögum. Það er skömm að því hvernig stjórnvöld hafa ekki sinnt hlutverki sínu, að veita nægu fjármagni til hjúkrunarheimilanna. Þess í stað hefur ríkisvaldið velt ábyrgðinni yfir á sveitarfélögin án þess að með fylgi nægilegt fjármagn, sem leitt hefur af sér verulegan aukakostnað fyrir þau. Stjórnvöld hafa valið að fara þann veg að skerða þjónustu við eldri borgara og svikist þannig undan þeirri samfélagslegu skyldu að tryggja þeim áhyggjulaust ævikvöld.
Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að tryggja að aldraðir njóti öryggis og bestu mögulegrar umönnunar og hjúkrunar. Stjórnvöld þurfa að taka þá ábyrgð alvarlega. Sameyki kallar eftir því að ríkið sinni lögbundnu hlutverki sínu með sóma og að þjónustan við eldri borgara sé áfram hluti af opinberri þjónustu. Sameyki hafnar með öllu þeirri aðferðafræði að fjársvelta stofnanirnar og lauma þeim síðan í hendur hagnaðardrifinna einkaaðila.