Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

1. maí 2021

„Við þurfum að gefa virkilega í“

Anna Kristín Jónsdóttir og Bergsteinn Sigurðsson umsjónarmenn Vikulokanna á Rás 1.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis var gestur í þættinum Vikulokunum á Rás eitt í morgun ásamt Söndru Frank formanni Sjúkraliðafélags Íslands og Halldóru Sigríði Sveinsdóttur formanni Bárunnar til að ræða verkalýðsmál á alþjóðlegum baráttudegi launafólks 1. maí. Þar sagði formaður Sameykis að eitt mikilvægasta verkefni í stéttarfélagsbaráttunni sé jöfnun launa á milli markaða, þ.e. opinbera vinnumarkaðarins og almenna vinnumarkaðarins. „Það hallar mjög á opinbera starfsmenn milli markaða, sagði Þórarinn. Við þurfum að gefa virkilega í til að ná þessum markmiðum. Það hallar mjög á opinbera markaðinn ennþá. Þessu markmiði verðum við að ná; að jafna laun milli markaða, þ.e.a.s. að opinberir starfsmenn njóti ekki lakari launakjara.“

Ríkið er nú að einkavæða heilbrigðiskerfið eins og fram hefur komið í fréttum. Þórarinn benti á að ríkisvaldið sé beinlínis að fá til sín ungt ófaglært verkafólk á lægstu laununum í samfélaginu til að ná niður rekstarkostnaði stofnananna. Þetta hefur vakið reiði meðal félagsfólks Sameykis. Atvinnuleysið í samfélaginu er líka algjörlega óviðundandi. Þá þarf að lengja í tímabilinu sem fólk njóti atvinnuleysisbóta.

„Á sama tíma er fyrirtæki eins og Toyota umboðið greiðir sér út 100 milljónir króna í arð, þiggur það hlutabótaleiðina frá ríkinu til að standa undir launakostnaðinum. Þetta gengur ekki og fyrirtækið á að greiða ríkinu til baka þann stuðning sem það hefur þegið,“ sagði Þórarinn Eyfjörð.

Umræða um launakjör og virði starfa í samfélaginu þarf að eiga sér stað sagði Þórarinn. „Þar er skekkja viðloðandi hvernig við metum virði starfa. Hver eru veðmætustu störfin og hvernig ætlum við að meta virði starfa launafólks til framtíðar?“

Hér er hægt að hlusta á þáttinn Vikulokin í heild sinni.