Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

3. maí 2021

Náttúruauðlindir í þjóðareign

Fiskibátar í höfn í Ólafsvík

Indriði H. Þorláksson skrifar grein í tímarit Sameykis um eignarhald á auðlindum Íslands.

 

Eignarhald á náttúruauðlindum landsins hefur verið mikið rætt á síðustu áratugum án þess að þokast hafi í rétta átt. Auðlindanefnd, skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, lagði til í skýrslu sinni árið 2000 að þeir sem fái leyfi til nýtingar á náttúruauðlindum greiði fyrir þann rétt. Þegar á reyndi undu hagsmunagæslumenn stórútgerðar ekki þeirri niðurstöðu og hlupu frá því verki sem hafið var og umræðan um málið koðnaði niður í lögfræðilegt skæklatog. Málinu hefur þó verið haldið vakandi og hefur á vegferð sinni tekið á sig skýrari mynd í hugum almennings einkum á síðasta áratug í umræðum um stjórnarskrá lýðveldisins og í umfjöllun um veiðigjöld í sjávarútvegi.

 

Þjóðin ein á óskipt tilkall til arðsins
Eitt af því sem notað hefur verið til að drepa málinu á dreif er staðhæfingin um að þjóðin geti ekki átt neitt, eignarréttur sé bara fyrir einstaklinga og stjórnarskráin tryggi þann rétt. Þessi fullyrðing stenst hvorki rök né hefur hún verið lögð til grundvallar lagasetningu í reynd. Stjórnarskráin tiltekur ekki til hvers eignaréttur einstaklinga taki og ekki kemur fram í henni að hann taki til allra eigna eða verðmæta. Enn síður er með einhverjum hætti fyrir það byggt að samfélagsleg eign sé til staðar eins og sjá má í eignarhaldi sveitarfélaga og ríkissjóðs á alls kyns eignum og reyndar er að finna í lögum dæmi um eignarhald þjóðarinnar sbr. Þingvallaþjóðgarð en í lögum um hann segir: „Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“ Varla verður litið á þetta eignarhald þjóðarinnar sem brot á stjórnarskránni. Eignarréttur einstaklinga er verndaður í stjórnarskránni en ekkert stendur í vegi fyrir því að stjórnarskráin skilgreini einnig eignarrétt þjóðarinnar með almennum hætti og kveði á um eignarhald hennar á náttúrauðlindum landsins.

Hvað felst í stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og hvers vegna er eignarhald þjóðarinnar á þeim mikilvægt? Í stuttu máli má segja að eignarhald þjóðarinnar felist annars vegar í skyldum þjóðarinnar gagnvart náttúruauðlindunum og hins vegar rétti hennar þeirra vegna. Þjóðareign felur þannig í sér þær skyldur að vernda náttúruauðlindirnar og sjá um sjálfbæra nýtingu þeirra og eins hitt að henni fylgir óskorað eignarhald á þeim í þeim skilningi að þjóðin ein geti nýtt auðlindirnar og ákveðið nýtingu á þeim og að þjóðin ein eigi óskipt tilkall til allrar rentu af auðlindunum, þ.e. arðsins af nýtingu þeirra, eftir að greiddur er kostnaður við nýtingu þeirra þ.m.t. eðlileg ávöxtun þess fjár sem bundið er í rekstri við nýtinguna. Í þessum skilningi er eignarhaldið virkt en ekki bara formlegt og stjórnvöldum á hverjum tíma ber að virða það og tryggja í framkvæmd.

 

Með klækjum tókst að ómerkja vilja þjóðarinnar
Markverðasta innlegg síðasta áratugar í umræður um auðlindamál var tillaga stjórnlagaráðs um þau í drögum að nýrri stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslan sem fram fór um efni hennar. Í þeirri kosningu kom fram að nærri 83% þeirra sem greiddu atkvæði voru því fylgjandi að tillaga ráðsins um að náttúruauðlindir skyldu lýstar sem þjóðareign. Þrátt fyrir að tekist hafi með klækjum að koma í veg fyrir eðlilega meðferð á tillögum ráðsins er þjóðaratkvæðagreiðslan eftir sem áður órækur vitnisburður um vilja þjóðarinnar í þessu efni. Það er til vansa að ómerkilegt og áhrifalaust formsatriði í atkvæðagreiðslunni sé notað til að ómerkja vilja þjóðarinnar sem kom svo ótvírætt fram og merkilegt er að Alþingi og stjórnvöld hafi komist upp með það í 8 ár að hundsa vilja þjóðarinnar í þessu efni, viðhalda óréttlæti og ræna almenning í landinu tekjum sem honum bar allan þennan tíma.

 

Varðsveit sérhagsmunanna
Glöggt hefur komið fram í umræðum síðustu ára um stjórnarskrána, fiskveiðiheimildir, veiðigjöld o.fl. að réttur þjóðarinnar til arðsins af auðlindunum er ásteytingarsteinninn sem stendur í vegi fyrir því að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum verði fellt inn í stjórnarskrána. Fámenn en fjársterk og áhrifamikil varðsveit sérhagsmuna berst gegn því að ákvæði um virkt eignarhald þjóðarinnar komi inn í stjórnarskrána en vill að áfram standi óvirkt ákvæði í lögum um fiskveiðar, um eign þjóðarinnar á fiskveiðiréttinum, vegna þess að það tryggir ekki óskoraðan rétt þjóðarinnar til að ákveða nýtingu auðlindarinnar og óskipt tilkall hennar til auðlindaarðsins. Á hinn bóginn er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sem krefst virks eignarhalds á náttúruauðlindum þ.e. þess að þjóðin fái sjálf að ráðstafa þeim og að auðlindaarðurinn renni til borgaranna og samfélagsins en ekki í vasa fárra útvaldra. Átökin um auðlindamálin eru þannig ekki bara stjórnmálaleg og efnahagsleg. Þau er í grunninn spurning um lýðræði.

 

Óviðundandi að þjóðin sé rænd réttmætri eign sinni
Stjórnarskrárákvæði um virka þjóðareign á náttúruauðlindunum er nauðsynleg forsenda þess að við nýtingu þeirra framvegis verði hagsmunir þjóðarheildarinnar hafðir að leiðarljósi en þær séu ekki lengur vettvangur arðráns, brasks og auðsöfnunar fárra. Slíkt ákvæði endurómar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um réttláta skiptingu þeirra gæða sem verða til í landinu fyrir tilstilli starfa vinnandi fólks og í skjóli þess samfélags sem skapað hefur verið hér á landi. Það er óviðunandi að stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, láti það viðgangast lengur að þjóðin sé rænd réttmætri eign sinni fyrir allra augum án þess að nokkuð sé aðhafst. Krafan um nýja stjórnarskrá og virkt eignarhald á náttúruauðlindum landsins á því heima á grunnfánum verkalýðsfélaganna og kröfum þeirra í tilefni af 1. maí.

Erfiðleikunum í efnahagslífinu nú um stundir þarf að mæta með hag almennings í huga. Í áformum stjórnvalda glittir hins vegar þegar í hugmyndir um að skerða opinbera þjónustu eða auka almenna skattheimtu á næstu árum til að borga kostnaðinn við ráðstafanir vegna veirufaraldursins. Með því er honum velt yfir á almenning í landinu. Það ætti að vera skilyrðislaus krafa að áður en slíkar ráðstafanir eru teknar á dagskrá verði eignarréttur þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins virtur og arðurinn af þeim látinn renna til samfélagsins. Mikið fé fengist með þeim hætti svo og með því að beita skattkerfinu til jöfnunar á skattbyrði og því að girða fyrir skattundanskot vegna götóttra laga og fjársvelts skatteftirlits. Þetta fé á til að greiða herkostnaðinn vegna veirunnar áður en fé er sótt í vasa almennings, þjónusta við hann skert eða uppbyggingu samfélagsinnviða slegið á frest.

 

Höfundur er hagfræðingur.

 

Hægt er að lesa 2. tbl tölublað Sameykis hér.