6. maí 2021
Er hægt að gera lágmarkskröfur?
Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis
Eftir Þórarinn Eyfjörð
Ég tel ekki að þingmenn geti verið upplýstir um allt sem í gangi er í samfélaginu á hverjum tíma. Hins vegar má gera þá kröfu til þingmanna að þeir séu almennt vel upplýstir, fylgist vel með hvað sé að gerast í samfélaginu og hafi puttann á púlsinum eins og hægt er. Eins er rétt að gera þá kröfu til þingmanna þegar þeir láta gamminn geisa í fjölmiðlum, að þeir séu búnir að vinna heimavinnuna sína og viti hvað þeir eru að tala um. Eða að minnsta kosti hafi einhverja lágmarks hugmynd um það.
Töfrabrögð og talnaleikir
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifar hálfsíðu grein í Morgunblaðið þann 28. apríl síðastliðinn. Þar fer hann mikinn um launaþróun opinberra starfsmanna og ber fyrir sig allskonar upplýsingum um að opinberir starfsmenn sitji við einhverja þá kjötkatla í launamálum sem almenni markaðurinn hafi ekki aðgang að. Í röksemdafærslu sinni og talnaleikjum tekur hann þó fram að „Á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu laun verkafólks frá byrjun síðasta árs til janúar síðastliðinn mest eða um 13,3%, á móti 8,5% meðalhækkun“. Undir lok greinarinnar dregur hann fram þessar ályktanir; „Búast má við að launafólk á almennum markaði geri þá kröfu – sem varla getur talist ósanngjörn – að það misgengi sem hefur átt sér stað í launaþróun hins opinbera og einkageirans, verði a.m.k. jafnað, þegar sest verður niður við gerð nýtta kjarasamninga“. Hér ratast þingmanninum satt orð á munn. Þó með öfugum formerkjum sé. Þegar hér er komið sögu er rétt að upplýsa Óla Björn um nokkur atriði er varða launasetningu á vinnumarkaði.
Raunveruleikinn
Þann 19. desember 2016 undirrituðu fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og staðfest af forsætisráðherra, ásamt formanni- og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og formönnum BSRB, BHM og KÍ hins vegar, samkomulag um breytingar á lífeyriskerfinu. Samkomulagið fjallar um jöfnun lífeyrisréttinda og jöfnun launa milli almenna og opinbera markaðarins, en á þessum tíma var vitað að verulega hallaði á opinbera starfsmenn í launum, eða sem nam 16-17% launamun að meðaltali milli jafnverðmætra starfa. Samkomulagið gerir ráð fyrir að opinberir launagreiðendur hafi svigrúm til 2022/2026 til að ákveða hvaða leið verður farin í því að leiðrétta þennan launamun og hækka laun opinberra starfsmanna til jafns við laun á almennum markaði.
Sérstakur verkefnahópur skipaður fulltrúum samningsaðila hefur verið starfandi við þetta mikilvæga verkefni og hefur hann unnið jafnt og þétt bæði að greiningum og að því að kortleggja leiðina að framkvæmdinni við leiðréttinguna. Verkefnahópinn leiðir Katrín Ólafsdóttur sem sæti á í peningastefnunefnd Seðlabankans og er dósent við HR.
Þingmaður og svarið er!
Það er því alveg rétt sem þingmaðurinn er að vekja athygli á; það þarf að leiðrétta launamuninn milli almenn markaðarins og opinbera markaðarins. Samningur er þar til um sem byggir á rannsóknum og fyrirliggjandi launaupplýsingum, sem sýna að opinberir starfsmenn eru og hafa verið í flestum störfum langtum verr launaðir en starfsmenn á almennum markaði þegar sambærileg og jafn verðmæt störf eru borin saman. Þessu samkomulagi verður fylgt mjög fast eftir, því eftir jöfnun lífeyrisréttinda mun jöfnun launa koma til framkvæmda eins og um var samið.
Gagnasafn ríkisins er vel upp byggt. Bendi ég þingmanninum á að hann getur eflaust nálgast viðkomandi samning hjá fjármála- og efnahagsráðherra. Þar getur hann kynnt sér 7. grein samningsins sem heitir Jöfnun launa.