6. maí 2021
Félagsfólk Sameykis í sterkari stöðu samkvæmt könnun Vörðu
Haydeé Adriana Lira Nunez aðstoðarforstöðumaður í frístundaheimilinu Frostheimar
Sameyki vill vekja athygli félagsfólks á skýrslu sem Varða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins gerði um stöðu launafólks á Íslandi. Um er að ræða niðurstöður spurningakönnunar meðal aðildarfélaga ASÍ og BSRB. Þar kemur m.a. fram að félagsfólk Sameykis er í sterkari stöðu en annað launafólk meðal aðildarfélaga sambandanna þegar litið er til atvinnuöryggis. Könnunin er jafnframt fyrsta stóra rannsóknaverkefni Vörðu. Efnahagskreppan í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar hefur valdið víðtækum breytingum á vinnumarkaði og daglegu lífi fólks og rík ástæða að rannsaka afleiðingarnar hjá launafólki.
Upplýsingar um stöðu launafólks
Í ljósi breyttrar stöðu á vinnumarkaði þótti ástæða til að leggja fyrir spurningakönnun meðal launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB til að afla upplýsinga um fjárhagslega, andlega og líkamlega heilsu launafólks á tímum COVID-19. Auk þess var sérstaklega horft til þess að ná til atvinnulausra og afla upplýsinga um stöðu þeirra í samanburði við launafólk.
Markmið könnunarinnar er að veita upplýsingar um stöðu:
1. Launafólks út frá fjárhagsstöðu og heilsu.
2. Atvinnulausra út frá fjárhagsstöðu, heilsu og atvinnuleit.
3. Innflytjenda út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.
4. Ungs fólks út frá fjárhagsstöðu, heilsu og stöðu á vinnumarkaði.
Könnunin var lögð fyrir í lok nóvember og byrjun desember 2020. Skýrslan sem Sameyki hefur fengið senda greinir frá niðurstöðum könnunarinnar innan Sameykis og er hún sett fram í samanburði við stöðu annarra félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB.
Hærra hlutfall háskólamenntaðra innan Sameykis
Áhugavert er að sjá Sameykisfélaga í samanburði við heildarniðurstöður. Hlutfall kvenna, fólks yfir þrítugu, innfæddra og háskólamenntaðra er hærra innan Sameykis en meðal viðmiðunarhóps. Marktækur munur er á vinnumarkaðsstöðu Sameykisfólks og heildarhópsins. Atvinnuleysi er mun minna (1,2% á móti 11%), færri eru á uppsagnarfresti (0,8% á móti 1,6%) og í annarri stöðu á vinnumarkaði (2,8% á móti 10,3%). Mun færra Sameykisfólk hefur verið á hlutabótaleiðinni (5,4% á móti 23%). Með öðrum orðum þá hefur atvinnuöryggi Sameykisfélaga á tímum kórónuveirunnar verið meira en atvinnuöryggi félagsfólks innan ASÍ og BSRB almennt.
COVID-19 faraldurinn ekki bitnað harðar á félögum Sameykis
Niðurstöðurnar sýna að efnahagsþrengingarnar af völdum faraldursins hafa ekki bitnað eins hart á atvinnuöryggi félagsfólks innan Sameykis og á atvinnuöryggi félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB almennt. Á það hvoru tveggja við meðal kvenna og meðal karla. Atvinnuleysi mælist 1,2% meðal Sameykisfólks en 11% meðal heildarhópsins, færra Sameykisfólk er á uppsagnarfresti (0,8% á móti 1,6%) og mun færri hafa verið á hlutabótaleiðinni (5,4% á móti 23%). Hins vegar er ekki munur á milli Sameykisfólks og annarra á því hvort starfshlutfall á hlutabótaleið hafi verið í samræmi við þá vinnu sem inn var af hendi. Starfshlutfallið var í samræmi við vinnuframlagið hjá ríflega tveimur þriðju hlutum Sameykisfólks á hlutabótaleið.
Lesa má skýrsluna í heild á vef Sameykis.