Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

20. maí 2021

Raunfærnimat hjá Vinnumálastofnun - hæfni starfsfólks gerð sýnileg

Frá vinstri: Þórunn Valdís Rúnarsdóttir, Jensína Lýðsdóttir, Aðalheiður Sif Árnadóttir, Eygló Kristín Gunnarsdóttir, Leó Örn Þorleifsson, Unnur Sverrisdóttir, Vilmar Pétursson, Kristín Birna Guðmundsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir, Jón Ólafur Sigurjónsson og Inga Rós Sævarsdóttir. Á myndina vantar Hafrúnu Kjellberg og Herdísi Þórunni Jakobsdóttur sem einnig voru að útskrifast.

Í gær lauk formlega tilraunarverkefninu raunfærnimat á móti starfi sérhæfðs þjónustufulltrúa hjá Vinnumálastofnun (VMST). Útskriftin fór fram við hátíðlega athöfn í húsnæði VMST á Skagaströnd að viðstöddum Unni Sverrisdóttur forstjóra VMST og Vilmari Péturssyni mannauðsstjóra VMST, ásamt Lilju Rós Óskarsdóttur frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Guðfinnu Harðardóttur og Sólborgu Öldu Pétursdóttur frá Fræðslusetrinu Starfsmennt og Jóhönnu Þórdórsdóttur frá Sameyki stéttarfélagi í almannaþjónustu.

Lokapunkturinn í raunfærnimatsferlinu var námskeiðið Krefjandi samskipti/aðstæður með Sigríði Huldu Jónsdóttur hjá SHJ ráðgjöf sem var mikil ánægja með. Í kjölfarið var þátttakendum afhent fagbréf sem staðfestir hæfni þeirra á þriðja þrepi íslenska hæfnirammans um menntun. En við greiningu á starfi sérhæfðs þjónustufulltrúa kom í ljós að verkefnin krefjast hæfni á þriðja þrepi.    
 
Útskriftarhópur raunfærnimat VMST Skagaströnd. Frá vinstri: Þórunn Valdís Rúnarsdóttir, Jensína Lýðsdóttir, Aðalheiður Sif Árnadóttir, Eygló Kristín Gunnarsdóttir, Leó Örn Þorleifsson, Unnur Sverrisdóttir, Vilmar Pétursson, Kristín Birna Guðmundsdóttir,  Guðrún Magnúsdóttir, Jón Ólafur Sigurjónsson og Inga Rós Sævarsdóttir. 

 

 

Starf fulltrúa I hjá VMST er dæmi um starf sem er að hverfa í núverandi mynd með aukinni sjálfvirkni. Hjá VMST skapaðist einstætt tækifæri til að tengja raunfærnimatið beint þeim breytingum sem eru að verða á störfum vegna tæknibreytinga. Líkt og fleiri fyrirtæki og stofnanir er VMST að taka í notkun nýtt tölvukerfi sem mun leysa af hólmi nokkur kerfi og um leið mörg verkefni sem áður voru í höndum starfsfólks. Samtímis verður meiri þörf fyrir sérhæft starfsfólk sem getur veitt viðskiptavinum margskonar ráðgjöf og sinnt úrlausn flóknari mála. Fulltrúastarfið er að hverfa í núverandi mynd og leggur stofnunin ríka áherslu á að bjóða starfsfólki sínu önnur störf og þá þjálfun sem til þarf. Þessar breytingar eru að gerast á starfsstöðinni á Skagaströnd. Í stuttu máli er framkvæmdin á þann veg að raunfærnimetið var á móti hæfnikröfum starfs fulltrúa III og öllum sem hafa starfsheitið fulltrúi I og fulltrúi III boðið að taka þátt í raunfærnimatinu. Að matinu loknu var boðið upp á þjálfun á vinnustað sem var sérsniðin að hverjum starfsmanni auk námskeiða sem hentuðu hópnum með það að markmiði að allir næðu þeirri hæfni sem þarf til að inna starf fulltrúa III vel af hendi. Þannig að samhliða því að fá núverandi hæfni metna og staðfesta fékk starfsfólk tækifæri til þjálfa sig fyrir annað starf sem hefur jákvæð áhrif á starfsþróun þeirra og kjör.
Raunfærnimati í atvinnulífinu er ætlað að gera færni fólks sýnilega og þjálfun í kjölfarið markvissari sem er mikils virði fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt.

 


Ítarlegri umfjöllun má finna á vefnum gatt.frea.is í grein frá 9. janúar 2020 sem heitir: Um raunfærnimat í atvinnulífinu – Breyttur veruleiki með 4. iðnbyltingunni.

 


Á útskriftinni kom fram hjá þátttakendum í raunfærnimatinu að í matsferlinu hefðu þau gert sér betur grein fyrir eigin getu. Mikil þekking og færni getur verið lítið sýnileg bæði stjórnendum sem og starfsfólkinu sjálfu og raunfærnimat er einmitt tækið til að draga leynda hæfni upp á yfirborðið. Þátttakendurnir upplifðu ferlið sem mikilvægt og spennandi því það varpaði skírara ljósi á styrkleika þeirra, þekkingu og færni. 

Við útskriftina sagði Vilmar Pétursson: 
„Við vorum mjög snögg að ákveða að taka þátt í raunfærnimatsverkefninu því við vorum byrjuð í mikilli stafrænni umbyltingu.. Engin þáttur starfseminnar er undanskilin og við vorum farin að velta fyrir okkur hvernig við ættum að bregðast við  breytingunum. Við vissum að fólkið á Skagaströnd hafði heilmikla þekkingu nú þegar til að takast á við ný verkefni og nýjan raunveruleika, en þetta gaf okkur tækifæri til að komast að því hvaða færni vantaði og hvað þyrfti að þjálfa. Ánægjulegt var hvað allir voru alltaf spenntir fyrir verkefninu.“

Þá kom Unnur Sverrisdóttir inn á það við útskriftina að í raun væri starfsfólk að viða að sér sérhæfðri þekkingu og færni í gegnum starfið sitt hjá VMST, þekkingu og færni sem fengist ekki annars staðar á vinnumarkaði. Stofnunin hefði þurft að takast á við mörg verkefni í Covid, oft og iðulega með afar skömmum fyrirvara og mætti segja að þetta hefði verið prófsteinn á seiglu og styrk starfsmanna.