Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

26. maí 2021

LSR greiddi lífeyri fyrir alls 68,7 milljarða á síðasta ári

Árni Stefán Jónsson formaður stjórnar LSR

Á ársfundi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem haldinn var í gær kom fram hjá formanni stjórnar, Árna Stefáni Jónssyni, að hrein raunávöxtun sjóðsins var 10,9% á síðasta ári sem er nálægt því að vera tvöföldun á meðalávöxtun síðustu fimm, og síðustu tíu ára. Þetta er raunin þrátt fyrir að hagvöxtur hafi dregist saman um 6,6 prósent á sama tíma, sem er næst mesti hagvaxtarsamdráttur í sögu Íslands.

Árni Stefán sagði að á umbrotatímum sem þessum sé mikilvægt að lykilstofnanir þjóðfélagsins standi ekki bara af sér áföllin, heldur taki virkan þátt í að halda samfélaginu gangandi. „Óhætt er að segja að þar hafi LSR sinnt sínu hlutverki af stakri prýði. Á síðasta ári greiddi sjóðurinn lífeyri til að meðaltali 27.093 einstaklinga – alls 68,7 ma.kr. á árinu – og það segir sig sjálft að slíkar greiðslur skipta verulegu máli fyrir þjóðarbúið þegar hagvöxtur snar minnkar.“

 

Ábyrg fjárfestingastefna
Einnig kom fram í máli formannsins að LSR vinnur eftir þeirri stefnu að fjárfesta með ábyrgð og að sú áhersla muni aukast enn frekar og verði tillit tekið til loftslagsmála um umhverfis í þeirri stefnu. Með þeim hætti væri verið að hugsa áratugi fram í tímann með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi.

Árni Stefán sagði að núverandi lágvaxtaumhverfi hafi leitt til þess að ríkisskuldabréf og aðrar fjárfestingar sem talist hafa öruggar síðustu áratugina duga skammt til að standa við tryggingafræðilega viðmiðið um 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóða. „Því hefur vægi þeirra minnkað jafnt og þétt síðustu ár á meðan áhættumeiri fjárfestingar aukast. Þess vegna sé brýnt fyrir lífeyrissjóðina að fjárfesta í útlöndum til að dreifa áhættunni með fjölbreyttari fjárfestingarleiðum heldur en eru í boði hér á landi.“

LSR er elsti og jafnframt stærsti lífeyrissjóður landsins í eignum talið en upphaf hans má rekja aftur til ársins 1919.