Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

9. júní 2021

Efnahagsmál rædd á trúnaðarmannaráðsfundi

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis setti fund trúnaðarmannaráðs.

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis setti fund nýs trúnaðarmannaráðs sem haldinn var í Gullhömrum í gær. Hóf hann fundinn með því að bjóða gesti velkomna, bæði þá sem mættir voru á fundarstað í Gullhömrum og þá trúnaðarmenn sem tóku þátt í gegnum fjarfundarbúnað. Þetta er í fyrsta sinn síðan COVID-19 faraldurinn hófst að hægt sé að funda með þessum hætti og létt var yfir fólki. Nýir trúnaðarmenn voru boðnir velkomnir og fengu gott klapp. Hann hvatti trúnaðarmenn að fylgjast vel með þeim fjölbreyttu námskeiðum sem í boði eru vegna þeirra starfa.

 


Fundargestir í Gullhömrum.

Á annað þúsund félagar í Sameyki mæla á erlenda tungu og því var túlkað það sem fram fór á fundinum.

„Mikil vinna hefur verið sett í að sinna styttingu vinnuvikunnar hjá Sameyki. Eins og fram hefur komið er það kerfisbreyting á íslenskum vinnumarkaði og marga hnúta hefur þurft að leysa. Góð teikn eru á lofti um að styttingin í vaktavinnu muni leysast.“ Þórarinn sagði að þegar jafnvægi verði náð með styttingu vinnuvikunnar verða stofnanasamningarnir skoðaðir og síðar verður farið í endurskoðun og endurmat á starfsmatskerfinu.


Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans.

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans fór yfir í sínu erindi um efnahagsmál á Íslandi fyrr og nú sem bar yfirskriftina Þegar stjórnvöld velja sigurvegara. Hann lýsti aðgerðum stjórnvalda undanfarin ár og afleiðingar þeirra á samfélagið. Sagði Þórður Snær að fordæmalaus hagvöxtur hafi verið á Íslandi frá árinu 2011 og hafi náð hámarki árið 2016 eða 7,4 prósent. Með áframhaldandi hagvexti til ársins 2019 þegar COVID-19 skall á heimsbyggðinni hafi hagvöxturinn einna helst verið byggður á ferðamannaiðnaðinum sem þá hrundi og hvernig stjórnvöld brugðust við.

Hann fór yfir aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar og hvernig fólk nýtti sér í miklum mæli að taka óverðtryggð lán sem bankarnir fóru að veita á lágum vöxtum og ollu miklum hækkunum á húsnæðismarkaði. Hann benti á að jaðarhópar hafi setið eftir, ungt fólk aðallega og fólk sem missti vinnuna í faraldrinum ásamt útlendu vinnuafli sem áður starfaði í ferðaiðnaðinum. „Í lok janúar 2021 voru rúmlega 26 þúsund manns án atvinnu að öllu leyti eða að hluta til. 20 þúsund voru á örorku, 3 þúsund á endurhæfingalífeyri og 2 þúsund þáðu fjárhagsaðstoð. Atvinnuþátttaka hefur aldrei verið minni en árið 2020 og fór undir 80 prósent í fyrsta sinn og þetta bitnar mest á ungu fólki og erlendu fólki. Helstu afleiðingarnar eru verri andleg heilsa og fólk neitar sér um heilbrigðisþjónustu,“ sagði Þórður Snær.

 



Jakobína Þórðardóttir deildarstjóri Sameykis kynnti fyrir fundinum til samþykktar þá fulltrúa sem fara á þing BSRB 29. september – 1. október. Framboð til þingsetu kom fram á fundinum og fóru fram kosningar og að þeim loknum var þessum síðasta trúnaðarmannaráðsfundi fyrir sumarfrí slitið með lófaklappi.