2. júlí 2021
Sjötíu útskrifast með diplóma í heilbrigðisgagnafræði frá HÍ
Myndirnar tók Ragna Kemp Haraldsdóttir.
Haustið 2019 hófst ný námsbraut, heilbrigðisgagnafræði, innan Læknadeildar við Háskóla Íslands. Samhliða var starfsheitinu læknaritari breytt í heilbrigðisgagnafræðingur.
Heilbrigðisgagnafræði er 90 ETCS eininga grunndiploma. Námið er hagnýtt, fræðilegt og starfstengt sem veitir réttindi til að starfa sem heilbrigðisgagnafræðingur. Heilbrigðisgagnafræðingar hafa sérþekkingu á meðhöndlun heilbrigðisgagna, gæðastöðlum og skilvirkni skráningar og lagaumhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Þeir gegna lykilhlutverki í öflun, skráningu og vistun heilbrigðisgagna. Störf þeirra eru einkum á heilbrigðisstofnunum og eru mjög fjölbreytt.
Rúmlega 100 nemendur hófu námið haustið 2019. Þann 19. júní voru svo útskrifaðir 70 heilbrigðisgagnafræðingar. Haldin var hátíðleg móttaka í húsi BSRB þar sem formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga bauð gesti velkomna og flutti ávarp. Þá ávarpaði Engilbert Sigurðsson, forseti læknadeildar HÍ, nýútskrifaða nema. Fór hann yfir leiðina sem var löng, við að koma náminu á háskólastig. Áður var námið kennt við Heilbrigðisskólann við Ármúla, eða frá árinu 1987 og hét þá læknaritun.
Á þeim rúmu 20 árum sem liðin eru frá því að hafist var handa við að koma náminu á háskólastig, hefur starfsumhverfið breyst gríðarlega, eða frá því að vera skráning með ritvélum á pappír, yfir í að vera rafræn skráning í rafrænt sjúkraskrárkerfi. Upprunalega starfsheitið, læknaritari, var orðið úrelt og finna þurfti nýtt starfsheiti. Leitað var til nýorðasmiða, rithöfunda o.fl. hugmyndafólks. Niðurstaðan varð „heilbrigðisgagnafræði” sem einfaldlega lýsir starfinu best, starfið er innan heilbrigðisgeirans og unnið er með gögn.
Gunnvör Karlsdóttir kennslustjóri námsins afhenti prófskírteini og veitti viðurkenningar fyrir námsárangur. Athöfnin endaði svo á ljúfum tónum Maríu Ólafsdóttur söngkonu, en hún var á meðal nýútskrifaðra heilbrigðisgagnafræðinga.
Stjórn Félags heilbrigðisgagnafræðinga
Frétt frá 1. mars 2019 - Heilbrigðisgagnafræði – nýtt starfsmiðað grunnnám á háskólastigi