Grettisgötu 89
105 Reykjavik
Ísland

525-8330
sameyki@sameyki.is
6202690-3449

14. september 2021

„Ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn“

Gylfi Magnússon, prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Ljósmynd/BIG

Gylfi Magnússon, prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands ræddi á trúnaðarmannaráðsfundi Sameykis sem haldinn var í dag um efnahagslífið í faraldri fyrir og eftir hrun. Fram kom í máli hans að horfurnar í efnahagslífinu eftir COVID-19 eru alls ekki svo slæmar að hans mati. Sagðist hann ætla að leyfa sér að vera nokkuð bjartsýnn á framtíðina þrátt fyrir allt. Sló prófessorinn á létta strengi í máli sínu og uppskar oft hlátur fundargesta þó fundarefnið hafi verið á alvarlegu nótunum. Sagði Gylfi að hallinn á ríkissjóði í faraldrinum hafi verið 230 milljarðar króna eða 130 milljónir á dag. Verg landsframleiðsla dróst hratt saman, jafnvel hraðar í faraldrinum en í hruninu, og landsframleiðsla dróst einnig saman líkt og á árunum 2008-9. Heildarmyndin sé þó samt vel viðráðanleg sagði Gylfi og peningalegar stærðir væru hagstæðar.

 

Vöxtur ferðaþjónustunnar og faraldurinn
Gylfi sagði að ekki væri alveg í sjónmáli að faraldurinn verði kveðinn í kútinn. Hann gæti jafnvel lifað með mannkyninu um langa hríð. Hann sagði næsta víst að flugsamgöngur muni opnast aftur og komist í sama horf og fyrir faraldurinn. Þó er ekki sjálfgefið að ferðaþjónustan verði með sama sniði og fyrir faraldur, því afar erfitt sé að spá fyrir hvert ferðamannastrauminn liggur næst. Nánast allar spár um ferðamannastrauminn eftir hrun voru kolrangar sem vanmátu vöxt ferðamannaiðnaðarins verulega, enda var vöxturinn alveg ótrúlegur. Hins vegar gætti þess í hagtölum að farið var að draga úr vexti ferðmanna til landsins fyrir COVID-19, eða um 14 prósent árið 2019. Gylfi sagði að Ísland gæti alveg lifað nú með þá ferðaþjónustu sem var árið 2013 og við upplifðum þegar landið var opnað í júlí og ágúst í ár.

„Ferðaþjónustan skiptir gríðarlega miklu máli í hagkerfinu og greinar tengdar ferðaþjónustunni bjuggu til u.þ.b. 15 þúsund störf fyrsta áratuginn eftir hrun sem er gríðarlega mikið í ekki stærra samfélagi. Þetta átti stóran þátt í því að eyða atvinnuleysi en störfin voru fleiri en Ísland gat með góðu móti fyllt og hingað til lands streymdi útlent vinnuafl og náði svipuðum hæðum og í góðærinu hér á landi fyrir hrun og sló raunar það met,“ sagði Gylfi.

 

Íslendingar í öfundsverðri stöðu
Þorri jarðarbúa búa við miklu verri lífskjör en hér á landi, gott væri líka að búa í nágrannalöndunum, en flestir jarðarbúar hafa það hins vegar skítt á íslenskan mælikvarða þegar átt er við t.d. kaupmátt og gæði opinberrar þjónustu, sagði Gylfi. „Kaupmáttur launa eins og hagstofa mælir hann hefur aukist. Hann er nær tvöfalt meiri en hann var í upphafi tíunda áratugarins og dróst saman í kjölfar hrunsins en hefur sáralítið eða ekkert dregist saman í faraldrinum.“

Gylfi sagði einnig að íslendingar væru í þeirri öfundsverðu stöðu, ólíkt því sem þjóðin glímdi við í kringum hrunið, að eiga meiri eignir í útlöndum en útlendingar eiga hér á landi. „Þessi staða hefur ekki verið síðan eftir síðari heimsstyrjöldina þegar ísendingar áttu dygra sjóði eftir stríð. Um mitt þetta ár voru hreinar eignir þjóðarbúsins um 11 hundruð milljarðar króna, eða um þrjár milljónir króna á mann. Þar munar mest um erlendar eignir lífeyriskerfisins. Enn fremur er enginn sérstakur skuldavandi innanlands, hvorki hjá fyrirtækjum, heimilum né hinu opinbera þó sumir skuldi auðvitað meira en þeir með góðu móti ráða við, en það er ekki eitthvað sem kalla mætti almennan skuldavanda, ólíkt því sem þurfti að glíma við í kjölfar hrunsins.“

Sagði hann að þrátt fyrir verulegan halla hjá ríkissjóði og sveitarfélögum á þessu ári og síðastliðnu ári þá er staða opinbera geirans sterk og lánskjör þar hagstæð og raunar hafa vextir aldrei verið hagstæðari frá því að þeir voru gefnir frjálsir fyrir um 30 árum. „Þetta kallar ekki á neinar sérstakar aðhaldsaðgerðir. Það verður hægt að greiða niður skuldir sem stofnaðar voru til vegna faraldursins á löngum tíma og á sársaukalítinn hátt,“ sagði Gylfi um skuldasöfnun ríkissjóðs í faraldrinum.

 

Staðan góð en þjóðin eldist
Ýmislegt bendir til að hægja muni almennt á vexti hagkerfsins á næstu áratugum hér á Íslandi og víðast hvar annarsstaðar. „Lýðfræðin mun ekki vinna með þjóðinni og vegur þar þyngst síðfellt hærra hlutfall þeirra sem hætta að vinna og fara á eftirlaun. Eins og staðan er í dag er þjóðin mjög nálægt því að vera með hægstæðustu aldursdreifingu þeirra sem nokkurn tímann hefur verið, og eru á vinnumarkaði frá aldrinum 20-64 ára, eða rétt yfir 60 prósent þjóðarinnar. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra frá því mælingar hófust en þessi aldursdreifing starfandi fólks á vinnumarkaði verður líklega um 50 prósent undir lok þessarar aldar og mun það hafa neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið,“ greindi Gylfi frá.

Þá sagði Gylfi að fólk sem flytur hingað ungt til landsins og hefur störf hefur veruleg lýðfræðileg áhrif á samfélagið og hagkerfið. Þetta unga fólk þarf að halda hjólum atvinnulífsins gangandi meðan hinir sem eldri eru hætta störfum.

 

Hagvöxtur keyrður áfram á nýtingu náttúruauðlinda
Þá skiptir máli að hagvöxtur á tuttugustu öld var keyrður áfram á aukinni nýtingu náttúruauðlinda. Fyrst fiskveiðiauðlindinni, þá vatnsaflsauðlindinni og síðar jarðvarmaauðlindinni. „Fiskimiðin munu skila áfram en vöxturinn hefur stöðvast. Fiskveiðiauðlindin gefur ekki meiri vöxt því ekki er hægt að auka magnið sem dregið er úr sjó þó eitthvað megi áfram bæta nýtinguna og draga úr kostnaði. Hagvöxturinn á 21 öldinni þarf að byggja á öðru þar sem þumalputtareglan er að gera meira úr minnu,“ sagði hann.

 

Orkuskiptin mikilvæg
Gylfi sagði að íslendingar glímdu við aðrar áskoranir eins og aðrir jarðarbúar í umhverfismálum, einkum hnattræna hlýnun. Í ýmsu sem þar þyrfti að gera fælust vitaskuld tækifæri fyrir efnahagslífið. „Sérstaklega þegar kemur að því að nýta betur innflutta orkugjafa og skipta þeim út fyrir okkar innlendu orku. Bílaflotinn er á góðri leið í orkuskiptunum en lengri tími líður þar til þau verði á lofti og á legi,“ sagði Gylfi.

„Þó hagfræðin sé stundum kölluð hin döpru vísindi, og hafa eiginlega verið það í 300 ár, sé ég útlitið framundan ekki svo svart og ég ætla að leyfa mér að vera nokkuð bjartsýnn. Hæglega gæti 21 öldin verið sú besta til þessa hér á Íslandi með hefðbundnum fyrirvörum eins og við þekkjum úr sögunni,“ sagði Gylfi að lokum.