14. september 2021
Hagfræði og spuni á trúnaðarmannaráðsfundi
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis á fundi trúnaðarmannaráðs. Ljósmynd/BIG
Trúnaðarmannaráðsfundur hjá Sameyki fór fram í Gullhömrum í dag. Á dagskrá fundarins var fræðsluerindi sem Jóhanna Þórdórsdóttir fræðslustjóri Sameykis sá um. Að því loknu var erindi Gylfa Magnússonar, prófessors og forseta viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands um efnahagslífið í og eftir COVID-19. Dóra Jóhannsdóttir fjallaði í líflegum fyrirlestri um lífið sem spuna – það er ekkert handrit. Fundinum lauk svo með kosningu í fulltrúaráð félagsins.
Í upphafi fundar bauð Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis fundargesti velkomna og lýsti ánægju sinni yfir því að geta komið saman aftur eftir langt hlé. Fór hann yfir stöðu mála hjá þeim stofnunum sem illa hefur gengið að innleiða styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og framvindu í þeim málum. Þá sagði hann frá skýrslu um endurmat á störfum kvenna og kynnti fyrir fundargestum hugtak um jafnvirði starfa á vinnumarkaði. Skýrslan er unnin af starfshópi forsætisráðherra um endurmat á störfum kvenna og hefur verið lögð fram til opins samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að skoða skýrsluna hér.
Skemmtileg fræðsluerindi
Þar á eftir var fræðsluerindi Jóhönnu Þórdórsdóttur um tækifærin sem í boði eru fyrir trúnaðarmenn til að efla færni sína í leik og starfi. Beindi hún máli sínu til fundargesta að tileinka sér hugarfar grósku og framtíðarhæfni, og hvernig hægt sé að tileinka sér færni eins og gagnrýna hugsun og lausnamiðaða nálgun á verkefnin. Jóhanna benti á að góður trúnaðarmaður þarf að vera ýmsum góðum kostum gæddur til að geta sinnt þeim verkefnum sem upp geta komið á vinnustaðnum og þarf að vera meðvitaður um hvað er í verkfærakassanum hjá Sameyki til að leysa málin.
Jóhanna Þórdórsdóttir, fræðslustjóri Sameykis.
Gylfi Magnússon ræddi við fundargesti um efnahagslífið í faraldri fyrir og eftir hrun. Kom fram í máli hans að horfurnar í efnahagslífinu eftir COVID-19 eru alls ekki svo slæmar að hans mati, sagðist hann ætla að leyfa sér að vera nokkuð bjartsýnn á framtíðina. Sló prófessorinn á létta strengi í máli sínu og uppskar hlátur fundargesta.
Gylfi Magnússon.
Dóra Jóhannsdóttir sté upp og talaði um spuna í lífi og starfi og hvernig fólk getur nýtt sér hann. Dóra þurfti á fundinum að sína fundargestum í raun hvernig spuninn tekur við og hið óvænta gerðist þegar tæknin brást og þurfti hún að spinna sig áfram og túlka samtölin þegar hljóð virkaði ekki með myndbandi sem hún sýndi. Sannarlega bráðskemmtilegt og gefandi erindi sem gestir kunnu vel að meta og hlógu með henni allan fyrirlesturinn. Formaður Sameykis þakkaði Dóru fyrir frábæran fyrirlestur og kvað gott að sjá kærleikann sem þar skini í gegn.
Dóra Jóhannsdóttir.
Að lokum kynnti Þórarinn Eyfjörð lista uppstillinganefndar í fulltrúaráð þar sem sjálfkjörnir eru 23 fulltrúar og þá 90 fulltrúa sem buðu sig fram. Fulltrúaráðslistinn var samþykkur og fundi slitið.