5. október 2021
Sameyki kallar eftir aðgerðum til að leiðrétta laun kvennastétta
Þórdís Á. Arnfinnsdóttir, stuðningsfulltrúi.
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu kallar eftir því að þegar í stað verði gripið til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem vanmetin hafa verið um langt skeið. Sameyki kallar eftir að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að lögð verði áhersla á að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld, byggi upp þá þekkingu sem þarf til að endurmeta og leiðrétta vanmat kvennastarfa með upplýstri samningaleið.
„Skýrsla starfshóps forsætisráðherra tekur með greinargóðum hætti saman stöðu þekkingar á sviðinu sem byggir undir þær tillögur sem gerðar eru. Reynslan sýnir að aðgerðarleysi leiðir til þess að ekkert breytist. Þess vegna þarf að grípa þegar í stað til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem hafa í sögulegu ljósi verið vanmetin,“ segir meðal annars í umsögninni.
Þá er kallað eftir því í umsögninni að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að innleiða skýra stefnu og þróa verkfæri í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, líkt og starfshópurinn leggur til. Ennfremur leggur Sameyki áherslu á það í umsögninni að eftirfylgni og framfylgd tillagnanna verði í forgangi hjá forsætisráðuneytinu og skrifstofu jafnréttismála.
Í umsögn Sameykis um skýrsludrögin kemur fram að 63 prósent félagsmanna eru konur og fjölmargar starfa innan starfsstétta þar sem konur eru í meirihluta, svonefndum kvennastéttum, t.d. í heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntakerfinu og opinberum stofnunum. Dæmi þar um eru skrifstofufólk stofnana, stuðningsfulltrúar, félagsliðar, skólaliðar, leiðbeinendur á leikskólum, heilbrigðisgagnafræðingar, heilbrigðisritarar, starfsfólk við störf við matseld og umönnun á hjúkrunarheimilum.
„Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu fagnar útgáfu skýrslunnar. Launamunur kynjanna hefur verið til umræðu á Íslandi og í öðrum löndum áratugum saman og gripið hefur verið til ýmissa aðgerða í því skyni að ná fram launajafnrétti. Síðustu ár hafa rannsóknir um launajafnrétti ítrekað bent á að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar. Í nýjustu rannsókn Hagstofunnar, sem tekur til áranna 2008-2020, er þetta staðfest og fjallað um mikilvægi þess að horfa ekki bara á eina tölu þegar fjallað er um launajafnrétti, heldur heildarmyndina.“
Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni hér.
Skýrslu starfshóps forsætisráðherra má lesa hér.
Hægt er að lesa skýrslu um launamun karla og kvenna frá Hagstofu Íslands hér.