18. október 2021
Mesta húsnæðisöryggið og ánægja leigjenda er hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum
Bátavogur í Reykjavík þar sem Bjarg íbúðafélag byggir leiguíbúðir
Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS er fjallað um leigumarkaðinn. Þar kemur fram að stærstur hluti leigumarkaðarins leigi af einstaklingi á almennum markaði, eða 41,9 prósent. Alls 18 prósent leigjenda leigja af ættingjum eða vinum. Hlutdeild einkarekinna leigufélaga á markaðinum er um tíu prósent, svipað hlutfall leigir af sveitarfélögum, 8,6 prósent á stúdentagörðum og 4,6 prósent leigja nú af óhagnaðardrifnum leigufélögum eins og Bjargi íbúðafélagi sem er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB.
Fram kemur í leigumarkaðsskýrslu HMS að 84 prósent þeirra sem leigja íbúð af óhagnaðardrifnum leigufélögum líkt og Bjargi íbúðafélagi eru ánægðir með húsnæðið sem þeir leigja. Þeir eru einnig ánægðastir allra á leigumarkaði.
Í frétt Kjarnans í dag sem fjallar um skýrsluna segir m.a.: „Í maí síðastliðnum tilkynnti Bjarg íbúðafélag að það hygðist lækka leigu hjá um 190 leigutökum félagsins. Meðalleigugreiðslur leigutaka áttu samkvæmt þeirri ákvörðun að lækka um 14 prósent, úr um 180 þúsund krónum í 155 þúsund. Þetta var gert í kjölfar endurfjármögnunar og endurskoðunar rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík.“